149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tók einmitt sérstaklega eftir því að hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, rökstuddi þetta ekki, sagði einfaldlega að við Miðflokksmenn ættum að vera glaðir og taka þátt í því að styðja þetta frumvarp.

Það er alveg ljóst í mínum huga að það eru ekki nægileg rök komin fram fyrir því hvers vegna á að ganga að því að kröfuhafar fái að fara út með sinn gjaldeyri, selja sínar krónur fyrir gjaldeyri á þessu gengi. Ég spyr enn og aftur: Ef við berum þetta saman við vormánuðina 2016 og útboðið þá, hvað breyttist á þessum tíma? Þetta er mjög mikilvæg spurning sem verður að fá svar við.

Hv. þingmaður nefndi einnig að hv. þm. Óli Björn Kárason hefði sagt að þetta væri að hluta til í eigu vogunarsjóða. En það er nú bara þannig að þetta er að meginhluta í eigu vogunarsjóða og á bak við vogunarsjóðina, eða öllu heldur fyrir framan þá, starfa bandarísk sjóðstýringarfyrirtæki sem svífast einskis í hagsmunagæslu fyrir sjóðina. Mig minnir að þær krónueignir sem eru að fara út núna séu vel rúmlega 40% í eigu eins sjóðs og þá undir framkvæmd þessa bandaríska sjóðstýringarfyrirtækis.

Það er nokkuð ljóst að hér eru á ferðinni sjóðir og sjóðstýringarfyrirtæki sem hafa komið illa fram við íslensk stjórnvöld og hafa ekki (Forseti hringir.) viljað taka þátt í þeirri uppbyggingu sem var gerð á fyrri stigum og er engin ástæða til að verðlauna með hærra gengi eins og kemur fram í þessu frumvarpi.