149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Við erum að sjálfsögðu litlu nær um hvers vegna þessar dagsetningar eru mikilvægar. Ég hjó eftir því hjá hv. formanni nefndarinnar að hann talaði um einhvers konar hættu án þess að rökstyðja það neitt sérstaklega. Það er mjög sérstakt í svona stóru máli að það skuli eingöngu vera tveir efnislegir fundir um málið því að það þýðir ekkert að telja með einhvern fund þar sem málið er sent til umsagnar. 13 umsagnarbeiðnir voru sendar og þrír skiluðu inn umsögnum og er ég búinn að lesa þær og verð að segja að þær eru svolítið einhliða, má segja, í það minnsta svipaðar. Það er þó ein þarna sem stingur aðeins í stúf. (Forseti hringir.)

Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort það hefði ekki verið eðlilegt að þetta mál fengi meiri umfjöllun.