149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð að segja að ég varð mjög hissa þegar ég sá þetta í greinargerðinni. Reyndar minnir mig að þar standi að breytingarnar sem í frumvarpinu felast muni ekki hafa teljandi áhrif. Þá spyr maður: Hvað þýðir það? Hversu háar fjárhæðir eru þar í spilunum?

Svona fullyrðingu verður náttúrlega að setja fram með rökum. Það hljóta að vera til einhverjar sviðsmyndir, a.m.k. ætti að vera auðvelt að setja upp einhverjar sviðsmyndir: Hvað ef gengi krónunnar lækkar um þetta mörg prósent, hvaða áhrif hefur það á tekjur og gjöld ríkissjóðs? Við þekkjum náttúrlega að þá verða öll aðföng til landsins dýrari sem ríkissjóður þarf að standa straum af, eins og t.d. í lyfjakaupum.

Þetta er mjög mikilvæg spurning og henni er því miður ekki svarað í greinargerðinni sem sýnir að þessi vinna er ekki nægilega vönduð.