149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég velti fyrir mér textanum í greinargerðinni þar sem talað er um þá aðila sem falla undir þessa breytingu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er þannig lagt til að heimildum til úttekta af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum samkvæmt lögunum verði breytt þannig að öllum aflandskrónueigendum verði gefið færi á að losa aflandskrónueignir sínar.“

Nú má vera að ég misskilji þetta og lesi þetta rangt þannig að um alla aflandskrónueigendur sé að ræða en ekki bara einhvern tiltekinn hóp, eins og skilja mátti af orðum hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar áðan. Það er erfitt að átta sig á því.

Ég sakna þess hins vegar að ekki hafi verið skýrt nánar hvort þarna sé um að ræða alla aflandskrónueigendur, alla sem eiga — þar á meðal vogunarsjóði, því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar nefndi sérstaklega að þeir væru ekki í þessum hópi, eins og ég skildi hann. Það er algerlega ljóst að öll viljum við að þessum höftum sé aflétt. Það er engin spurning um það. Við deilum hins vegar um hvernig það er gert og hvort verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með einhverjum hætti og að einhverju leyti.

Ég skil málið þannig að menn neiti því alla vega ekki að til séu aðrar leiðir sem geti hugsanlega skilað betri niðurstöðu. Í það minnsta þrætti hv. formaður nefndarinnar ekki fyrir það. Svo er það vitanlega alltaf pólitísk ákvörðun eða huglægt mat — og þó, það þarf ekki endilega að vera huglægt, það getur líka verið vísindalegt eða að menn séu búnir að fara í gegnum það að einhverjar aðstæður geri það að verkum að rétt sé að klára einhver mál á ákveðnum tímapunkti. Hv. þingmaður og formaður nefndarinnar sagði að best væri að gera þetta núna án þess í rauninni að rökstyðja það neitt sérstaklega.

Það eina sem fram kom í máli hv. þingmanns var að efnahagsástandið væri gott og ríkissjóður stæði mjög sterkt. Það er rétt, það er ekkert nýtt að það sé bjart fram undan og við stöndum sterkt eða að útlit sé fyrir það. Árið 2016 var í rauninni mjög bjart yfir og gott útlit. Því má velta upp hvort það ástand sem er á almennum vinnumarkaði í dag og lausir kjarasamningar og sú óvissa sem fram undan er varðandi áhrif kjarasamninga á verðbólgu og allt það sem við þekkjum geti leitt til þess að ekki sé jafn glæsilegt fram undan og verið hefur. Þjóðarbúið stendur vissulega sterkt. Því er ekki að neita, þökk sé aðallega og fyrst og fremst þeirri vegferð sem menn fóru í til að létta af fjármagnshöftum. Og að sjálfsögðu því að menn tóku ekki á sig hinar svokölluðu Icesave-skuldbindingar, sem allt of margir í þessum þingsal börðust hreinlega fyrir á sínum tíma að þjóðin tæki á sínar herðar. Eftirleikinn þekkjum við ágætlega. Það er því að mínu viti enn þá — og hefði kannski átt að vera, en ég ætla að leyfa mér að hafa fyrirvara á því vegna þess að mér fannst formaður nefndarinnar skýra það nógu vel, nema það sé þannig að sá ákveðni hópur sem þarna um ræðir sé þannig samsettur að um hann gildi önnur lögmál en aðra aflandskrónueigendur. Það þarf þá að rökstyðja það betur og mögulega stafa það ofan í mann til að maður treysti því og trúi.

Virðulegur forseti. Málið svo sem minnkar ekki mikið þó að við tölum hér áfram. Þetta er enn þá frekar óskýrt og gríðarlega stórt mál sem við þurfum að komast til botns í.