149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Hann var m.a. að velta fyrir sér hvað mætti lesa út úr ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og var ég reyndar að því líka í mínu sæti. Við höfum mikið velt fyrir okkur þeirri stöðu sem er uppi og hvers vegna málið er unnið með þessum hætti og af hverju er erfitt að fá svör við þeim spurningum sem við erum að kasta á milli okkar. Við gerðum okkur kannski góðar vonir um að fá skýrari svör í ræðu hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Hann vitnaði mikið í frumvarpið og í greinargerð þess og maður er búinn að fara í gegnum það og þar er ekki að finna þau plön eða það sem svarar þessum spurningum. Formanninum varð aftur á móti tíðrætt um góða stöðu þjóðarbúsins sem sannarlega er rétt.

Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta sé svona, menn standi ekki í lappirnar, og nú ætla ég að vanda mig því að ég ætla ekki að fá ákúrur frá hæstv. forseta fyrir að segja eitthvað óviðurkvæmilegt. Reyndar var annar einstaklingur í pontu þegar ég fékk þær ákúrur. Þingmaðurinn segir: Af hverju gleðjist þið ekki yfir þessu? Það er svo góð staða í þjóðarbúinu að þið eigið bara að gleðjast yfir því að loksins sé þetta mál að klárast þó að dragsúgurinn taki kannski einhverjar krónur út um gluggann og þær hverfi út í vindinn, sem er þó erfitt að fullyrða um. (Forseti hringir.) Verið glaðir, það er eiginlega svarið. Látið ekki svona. Partíið er ekki búið.