149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað gleðjumst við þegar við náum að útskrifa okkur sjálf út úr því umhverfi sem við neyddumst til að búa hér til. Það var ekki eins og stjórnmálamenn eða ríkisstjórnir eða eitthvað af því fólki hafi óskað eftir því að lenda í þeim aðstæðum sem hér voru. Hér varð efnahagslegt hrun og menn eru að glíma við það en okkur ber að taka réttar ákvarðanir.

Það var rétt ákvörðun að setja neyðarlögin 2008. Hins vegar var fullt af röngum ákvörðunum tekið í tíð vinstri stjórnarinnar 2009–2013. Það var tímabil þar sem hefði þurft að taka aðrar ákvarðanir og standa miklu betur að málum en gert var. 2013–2016 tókst hins vegar eftir mikið japl, jaml og fuður að koma því í gegnum kerfið hvaða leið yrði farin til að reyna að rétta stöðu Íslands. Var það þessi þrískipta leið sem hér hefur verið svo mikið rætt um.

Markmiðið er að sjálfsögðu að hér gildi engin höft, að við séum með sama umhverfi og önnur ríki. Við erum hins vegar svo lánsöm að vera í þeirri stöðu að sú leið sem við fórum gerir það að verkum að við stöndum miklu betur en ríki sem voru neydd í annars konar aðgerðir til að bregðast við sama vanda. Nefni ég þar Grikkland sem er kannski skýrasta dæmið en auðvitað þurftu mörg önnur Evrópuríki að grípa til alls konar aðgerða til að reyna að rétta sína stöðu. Þó svo að við fögnum því þegar hægt verður að lyfta höftum gerum við að sjálfsögðu þá kröfu að það sé gert með ákveðnum hætti.