151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er augljóst að landbúnaðurinn á Íslandi er á margan hátt í öfundsverðri stöðu. Stuðningur stjórnvalda, hvar svo sem litið er til flokkaflórunnar hér á Alþingi, er greinilega mjög mikill við atvinnugreinina þó að okkur greini á um leiðir, eins og hér hefur komið fram, og með hvaða hætti við viljum styðja þessa öflugu og góðu atvinnugrein.

Ég vil leggja áherslu á það í þessari umræðu, af því að sumir ræðumenn tala hér um að landbúnaðarkerfið sinni þörfum fortíðar, að við horfum nú bara hlutlægt og raunsætt á þetta. Landbúnaðurinn á Íslandi framleiðir á margan hátt mjög góðar vörur. Nýbreytni er að finna mjög víða í landbúnaðarframleiðslunni, við getum tekið grænmetisframleiðslu sem dæmi, við getum tekið úrvinnslu í mjólkuriðnaði o.s.frv. Það er fullt af góðum hlutum sem verið er að gera. Vandamálin eru stærst og mest á sviði sauðfjárræktar. Þá er dálítið einkennileg mynd sem blasir við okkur ef við horfum á lambakjötið. Neysla á því hefur dregist saman ár frá ári. Framleiðslan er sömuleiðis að minnka, verð til bænda er það lægsta í Evrópu. Í nautakjötsframleiðslunni hins vegar, sem býr við innflutning, hefur verð til bænda verið einna hæst. Við sjáum aukningu í neyslu á nautakjöti og sömuleiðis er framleiðiaukning hér innan lands. Þannig að vandinn liggur í lambakjötinu. Þar er afkoma sauðfjárbænda alveg ömurleg og þarf að leita allra leiða, eins og við erum að gera með Landssambandi sauðfjárbænda, til að styrkja grunninn undir sauðfjárræktina á Íslandi. Það verður vandaverk.

Af því að spurt er um hvernig aðgerðaáætlun miðar vil ég nefna að henni miðar mjög vel. Fulltrúi Miðflokksins nefnir 24 liða aðgerðaáætlun og flest af þeim verkefnum sem þar er að finna eru í gangi.

Fulltrúi Samfylkingarinnar talar um að tollar séu andstæðir nútímaviðskiptaháttum, en á sama tíma talar hann um að við þurfum að ganga í Evrópusambandið þar sem tollmúrar eru hvað hæstir í veröldinni og tollur á matvæli í Evrópusambandinu er til muna hærri en á Íslandi. Ég hvet hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að kynna sér það sérstaklega áður en þeir halda þessu fram.