151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Varðandi fyrstu spurninguna þá komum við til móts við þær umsagnir sem komu fram. Margir umsagnaraðilar lýstu miklum áhyggjum af því að ekki væri verið að tryggja nægilega vel það sem frumvarpið gekk út á, og kannski sérstaklega það sem sneri að landsbyggðinni. Þeir lýstu áhyggjum af því hvort þar væri tryggt aðgengi að ráðgjöf og upplýsingum og aðgengi að Tækniþróunarsjóði, og áhyggjum af samþykkt umsókna, af því að komið hefur í ljós að ekki er hár hluti umsókna af landsbyggðinni sem fengið hefur afgreiðslu í Tækniþróunarsjóði hingað til.

Ég tel að við höfum unnið vel með þær áhyggjur og mætt þeim að stærstum hluta í þessu máli. Og eins og ég fór yfir tel ég mjög mikilvægt og auðvitað í takti við tímann að styrkja aðgengið að þessari stafrænu nýsköpunargátt, að þar sé ókeypis ráðgjöf á fyrstu stigum og aðgengi allra landsmanna og líka stuðningur við að sækja um í þessum sjóðum og byggja umsóknir upp með sem faglegustum hætti, og að tryggð verði samfella í byggingarrannsóknum, sem við unnum mikið með, og að aðstaðan að Keldnaholti verði nýtt þar til annað verður byggt upp, að það verði gert eftir tvö ár.

Varðandi stafrænu smiðjurnar skal ég koma inn á þær í seinna andsvari mínu.