152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[13:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafði efasemdir og áhyggjur af þeirri leið sem farin var í öðrum fasa sölunnar á Íslandsbanka. Þetta staðfesti hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hér í morgun. Við í stjórnarandstöðunni settum fram áhyggjur og efasemdir um söluna. Þær eru vel skráðar í umsögnum sem við skiluðum áður en salan fór af stað. Fjármálaráðherrann, sem bar ábyrgð á sölunni, hélt áhyggjunum og efasemdunum út af fyrir sig. Og þrátt fyrir áhyggjur sínar, þrátt fyrir áhyggjurnar og efasemdirnar sem hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra segir að hann hafi viðrað þá fól hann Bankasýslunni mjög víðtækt og opið umboð til að framkvæma söluna eftir þeirri forskrift sem nú er fullyrt að allir þrír ráðherrarnir í ráðherranefnd um efnahagsmál hafi haft efasemdir um og kvittaði svo upp á söluna, að sögn án þess að búa yfir upplýsingum um tilboð og tilboðsgjafa.

Armslengd er sagt. Armslengd. Nú er það svo að það gildir armslengdarregla um eigendastefnu og eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Hún snýst um að pólitíkusar séu ekki að skipta sér af stjórnun og daglegum rekstri ríkisfyrirtækja. En það er engin armslengdarregla skrifuð inn í lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Lögin gera beinlínis ráð fyrir því að ráðherra ráði ferðinni og vaki yfir ferlinu á öllum stigum þess, að ráðherra leggi línurnar um söluaðferð og markmið sölunnar og upplýsi Alþingi um þessa þætti, að ráðherra taki ákvörðun um hvort sölumeðferð skuli hafin og að ráðherra taki endanlega ákvörðun um hvort gengið sé að tilboðum eftir að hafa yfirfarið mat Bankasýslunnar á tilboðunum. Þessu lögbundna hlutverki getur ráðherra ekki sinnt samkvæmt þeim skráðu og óskráðu meginreglum sem hann er bundinn af nema hann og ráðuneyti hans afli víðtækra upplýsinga og leggi mat á það. Það liggur í augum uppi hjá öllum sem hafa einhvern lágmarksskilning á stjórnsýslurétti. Eftir flugeldasýningu sem Bankasýsla ríkisins bauð upp á opnum fundi í gær þá vitum við að það er ekki bara í lögunum sem var engin armslengdarregla heldur líka í framkvæmdinni, því að eins og kemur skýrt fram í minnisblaði Bankasýslunnar (Forseti hringir.) og á fundinum í gær voru fulltrúar fjármálaráðherra viðstaddir fundi Bankasýslunnar með söluráðgjöf daginn (Forseti hringir.) sem útboðið fór fram og aðra fundi þeirra fram til þess að lokað var fyrir áskriftir. Og áfram voru náin samskipti (Forseti hringir.) þarna um kvöldið sem lyktaði með ákvörðun ráðherra, hins áhyggjufulla ráðherra, sem var með bundið fyrir augun.

Ég vil þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra (Forseti hringir.) fyrir að hjálpa til við að varpa ljósi á fáránleikann í þessu máli.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða hér ræðutíma.)