133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður tekur undir það pólitíska markmið að tvöfalda veginn að öllu leyti. Ég ætlaði bara að hnykkja á því að umferðarþungi um Suðurlandsveg hefur aukist um 30% síðustu fjögur ár. Haldi hún áfram á næstu fjórum árum verður umferðin árið 2010: 12.500 um Geitháls, 10.000 um Sandskeið o.s.frv. Umferðarþunginn er svo mikill á þessum vegi og aukningin svo ofboðslega hröð.

Menn sáu ekki fyrir, fyrri tíu árum, að umferð mundi aukast um 100% um Suðurlandsveg á einum áratug enda hefur svæðið byggst upp og fólk sækir þangað austur. Grundvöllur þess að stækka atvinnusvæðið, bæta búsetuskilyrðin og auka umferðaröryggið á þessum vegi þannig að banaslys heyri nánast eða alveg sögunni til er að fara í þessa framkvæmd. Pólitísk samstaða hefur náðst um málið og einhugur er um það á meðal sveitarstjórnarmanna. Þess vegna er áríðandi að kalla þetta fram.

Það stendur hvergi í áætluninni að fara eigi í 2+2 veg. Það stóð í drögunum 2+1, eins og fréttir bárust af úr þingflokkunum en því var breytt og setningin tekin út. Það má lesa út úr framlögunum sem áætluð eru á þessum tveimur, þremur tímabilum að fara eigi í 2+2. Ég vil bara fá það algjörlega skýrt fram við umræðuna að það sé vilji stjórnvalda að fara þá leið þannig að menn hlaupi ekki í eitthvert skálkaskjól síðar og segi að það hafi aldrei komið fram að fara ætti í þessa breikkun heldur 2+1 veg með vír á milli o.s.frv. Það skiptir einfaldlega öllu máli.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um annað. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi að það ætti að vera eitt af pólitískum markmiðum okkar á næstu árum að ná því að 3% af vergri landsframleiðslu fari til samgöngumála í stað 1,9–2% núna. Tekur hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins undir þetta markmið? Ég held að þetta skipti miklu máli og gæti orðið mjög áríðandi í pólitíkinni á næstunni.