133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:09]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að sleppa metingi um hvort nauðsynlegra sé að fá veg til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Raufarhafnar eða Tálknafjarðar, Bíldudals og Patreksfjarðar. Fleira fólk býr við norðausturveg en á suðurfjörðunum. Það er alveg ljóst.

Vandinn við hringveginn á Austurlandi er ekki einungis sá að þar eru langir malarkaflar, heldur var bundið slitlag lagt á gamla veginn eins og hann kom fyrir, eins og var gert mjög á fyrri hluta 9. áratugarins.

Það eru mjög hættulegir vegir, bæði í Fáskrúðsfirði og víðar. Það er óhjákvæmilegt að setja sér markmið varðandi það hvernig hægt er að koma bundnu slitlagi á þessa vegi um Austurland. Að vísu er Fáskrúðsfjörður ekki hringvegur en það er mikil flutningaleið.