135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

veiðar í flottroll.

[10:40]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Nú eru þau gleðitíðindi, sem okkur birtust í gær, að hægt sé að fara að veiða loðnu aftur. Auðvitað fögnum við því öll en það kemur kannski dálítið á óvart að með viku millibili hafa mælingar á loðnustofninum stækkað um helming, þ.e. úr 250–300 þús. tonnum upp í 470 þús. tonn, þannig að við teljum að við getum veitt u.þ.b. 70 þús. tonn úr stofninum núna. Þetta er auðvitað jákvætt þrátt fyrir að ekki sé um að ræða mælingar á svokallaðri vestangöngu sem á ábyggilega eftir að koma inn í þessa veiði á síðari stigum eða við eigum eftir að verða vör við hana eftir kannski hálfan mánuð, þrjár vikur. Þessu til viðbótar gæti átt eftir að bætast í þessar mælingar eða þá torfu sem verið er að veiða núna við Vestmannaeyjar meira magn að austanverðu eða við gætum átt eftir að mæla meira af loðnu sem er að ganga vestur með landinu.

Ég vil spyrja sjávarútvegsráðherra um flottrollsveiðar. Það er álit margra, bæði núverandi og fyrrverandi skipstjórnarmanna á loðnuskipum, að flottrollsveiðar séu mjög til hins verra og hafi gert loðnustofninum mjög illt. Ef landað er 100 þús. tonnum úr flottrollum sé búið að drepa 250–300 þús. tonn í það heila, þ.e. sem ekki skilar sér í land en er búið að drepa. Þetta er auðvitað hlutur sem menn þurfa að hugleiða til framtíðar. (Forseti hringir.) Einnig vil ég spyrja um hvort ekki þurfi að endurskoða þorskmælingar líka.