135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:41]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum ekki flokkað verkefnið eftir því hverja Afganir kjósa sér til forustu. Farið hafa fram lýðræðislegar kosningar í landinu og þeir hafa valið sér fólk til forustu. Við getum haft á því ýmsar skoðanir hvort það fólk eru drullusokkar í einhverjum mæli eða ekki, en það kemur málinu ekkert við. Þetta er það fólk sem fólk hefur kosið sér til forustu og verður að hafa rétt til þess.

Við stöndum með fólkinu í landinu gegn, eins og hv. þingmaður sagði, sérhagsmunum og gegn ofbeldismönnum sem hafa hreiðrað um sig í landi þeirra og hlúð að hryðjuverkum í þeirra nafni án nokkurs umboðs, eins og talibanastjórnin gerði. Og auðvitað hlýtur það að vera verkefni okkar að standa við þær aðstæður með þessu fólki og reyna að styðja það til þess að koma stjórn á samfélag sitt.

Ýmiss konar árangur hefur náðst. Það hafa líka verið erfiðleikar. Verkefnið er mjög ungt, það er í byrjunarferli. Enn er um það mjög góð og víðtæk samstaða á alþjóðavettvangi og ég held að engin ástæða sé til að örvænta núna, ekki frekar en ástæða var til að örvænta í Bosníu árið 2000. Þá heyrðust þó margar raddir, eins og rödd hv. þingmanns núna, um að menn ættu bara að fara út. Þetta tæki svo langan tíma.

Auðvitað tekur þetta langan tíma. En ekki er þar með sagt að menn þurfi að vera með þungvopnað lið, marga tugi þúsunda manna eins og var í byrjun í Bosníu í lengri tíma. Eftir því sem málum vindur fram er hægt að draga úr tilkostnaði og draga úr viðbúnaði, blessunarlega. En það má ekki gefast upp fyrir ofbeldisöflunum (JM: Hvað féllu margir NATO-hermenn í Bosníu?) og það má ekki segja að vegna þess að skæruárásir hryðjuverkamanna hafi orðið eigi menn að gefast upp á verkefnunum.