136. löggjafarþing — 72. fundur,  26. jan. 2009.

Tilkynning frá ríkisstjórninni.

[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Herra forseti. Ágætu þingmenn. Eins og forsætisráðherra sagði réttilega hefur þessu ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verið slitið og forseta verður væntanlega gerð grein fyrir því síðar í dag. Forsætisráðherra sagði að ástæðan fyrir því væri ekki málefnaleg ástæða heldur sú að Samfylkingin gerði kröfu um forustu í ríkisstjórninni. Ég tel að þetta sé ekki alveg réttilega með farið af hálfu forsætisráðherra. Við viljum síst af öllu lasta hann og hans orð. Það var samt ekki rétt með farið.

Ástæðan fyrir því að þetta stjórnarsamstarf gengur ekki lengur er sú að það er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu núna að það sé í fyrsta lagi öflug verkstjórn, það sé öflug aðgerðaáætlun og að það sé traust og trúverðugleiki á ríkisstjórninni. Þó að ríkisstjórnin hafi í haust gert mjög marga hluti vel — og er það í rauninni kraftaverk eftir það efnahagshrun og bankahrun sem þá varð að hér skyldu vera starfandi bankar í landinu, greiðslumiðlun skyldi virka þar sem hægt var að greiða fyrir vörur og lyf og alla hluti sem margir höfðu spáð að mundi ekki takast — allt þetta tókst — hafa aðgerðir í þágu heimilanna og ekki síst fyrirtækjanna í landinu gengið of hægt á undanförnum mánuðum.

Ég tel að Samfylkingin hafi sýnt mikið langlundargeð við þessar aðstæður. Ýmislegt sem varðar breytingar í fjármálakerfinu okkar sem lýtur ekki síst að Seðlabankanum og því að endurreisa traust á þessari æðstu stofnun efnahagsmála í landinu sem er Seðlabankinn hefur mistekist. Við viljum að á því verði breyting eigi síðar en strax. Við teljum að það sé ekki hægt að bíða lengur. Við erum búin að bíða frá því í haust, við getum ekki beðið lengur eftir þeirri breytingu. Hún verður að gerast núna. Það er ekki hægt að vísa henni inn í framtíðina með hugmyndum um hugsanlegar lagabreytingar. Þetta þarf að gerast núna. Svo tel ég líka að öflugt verkstjórnarvald þurfi inn í ríkisstjórnina.

Við þær aðstæður sem núna eru, m.a. vegna minna eigin veikinda og forsætisráðherra, tel ég að eðlilegt væri að við tvö mundum stíga til hliðar, taka okkur leyfi í einn mánuð eða tvo. Ég tel að sá þingmaður sem hefur hvað mesta reynslu, mestan trúverðugleika og er hvað óumdeildastur meðal þjóðarinnar, þ.e. Jóhanna Sigurðardóttir, ætti við þessar aðstæður að leiða ríkisstjórnina. Það er mín tillaga að svo verði og það var mín tillaga til forsætisráðherra að þannig yrði málum háttað fram að kosningum. Síðan getur þjóðin ákveðið það hvernig hún vill haga hlutunum eftir kosningar. Hér er öflugur, reyndur þingmaður og ráðherra sem gæti leitt þessa ríkisstjórn fram að kosningum til að vinna tiltekin verk. Þau verk sem ég er þar að tala um er auðvitað efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að fylgja henni fram, að gera breytingar á stjórnarskránni sem varða fullveldi og auðlindir þjóðarinnar, að skipta um yfirstjórn Seðlabanka Íslands og breyta þar lögum, að taka til höndum varðandi erfiðleika heimilanna í landinu og stofna sérstakan bjargráðasjóð heimilanna til að standa straum af björgunaraðgerðum í þágu heimilanna. Það eru auk þess ákveðnar aðgerðir í þágu fyrirtækjanna sem þegar hafa verið ákveðnar sem koma þarf til framkvæmda. Við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin afgreiddi fyrir áramót 12 aðgerðir í þágu fyrirtækja í landinu en einungis þrjár þeirra eða fjórðungur eru þegar komin til framkvæmda. Það er mikilvægt að á því verði breyting, að þessir hlutir komist til framkvæmda. Það sé ekki bara talað og ákveðið, það sé hlutur sem verði framkvæmdur. Það er það sem við, Samfylkingin, viljum tryggja, að hér sé öflug pólitísk starfsstjórn undir tryggri forustu fram að kosningum. Þjóðin getur síðan tekið ákvörðun í kosningum hvernig hún vill sjá hlutunum best fyrir komið á nýju kjörtímabili. Þetta er ástæðan fyrir því að þessi ríkisstjórn heldur ekki áfram. Hún snýst ekki um það að Samfylkingin sem slík vilji leiða ríkisstjórnina heldur að það sé öflug forusta fyrir henni, það sé öflugur einstaklingur sem leiði sem er traust og trúverðugleiki á.

Þetta er okkar tillaga og okkar tilboð og því hefur verið hafnað. Það er auðvitað okkar að gera forseta Íslands grein fyrir þessu og síðan þingmanna allra að sjá til þess að hér verði, hvernig svo sem allt veltist og snýst, öflug starfsstjórn. Þegar ég segi starfsstjórn er ég að tala um að hér verði starfsöm stjórn fram að kosningum og hún á auðvitað að styðjast við þingmeirihluta.