139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki orðið of seint samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér og settar hafa verið fram og sú þingsályktunartillaga sem flutt hefur verið byggir á. Það er hins vegar væntanlega of seint að gera það fyrir breskum dómstólum en fyrir alþjóðlegum dómstólum er það líklega ekki of seint en það mun að sjálfsögðu koma í ljós.

Frú forseti. Bara það að setja fram slíka kröfu, kanna og láta á það reyna hvort við getum sótt bætur á hendur Bretum er að sjálfsögðu og á að vera mál sem þingið getur komið sér saman um. Við erum með skiptar skoðanir, við erum ekki sammála í Icesave-málinu en við hljótum að geta verið sammála um að leita allra leiða til að réttlætið nái fram að ganga gagnvart þessum aðilum sem hafa kúgað okkur til að taka á okkur ábyrgðir, greiðslur, eða viljað gera það í það minnsta, á sama tíma og þeir valda okkur miklu tjóni eins og margoft hefur verið bent á.

Það er stórmál að afgreiða þetta á þinginu. Þjóðin tók til sinna ráða þegar forseti Íslands ákvað að vísa því til þjóðarinnar. Nú er málið í höndum Alþingis og nú getur það tekið af skarið og vísað því til þjóðarinnar og gert það með reisn í stað þess að treysta á að forsetinn beiti því valdi sem hann hefur þegar mál sem þessi koma upp. Ég verð að segja að það er vitanlega miklu betra að þingið taki þá afstöðu að vísa því til þjóðarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þær tillögur sem hér hafa komið fram falli henni í geð þannig að við munum sem flest sameinast um að samþykkja þær tillögur sem hér hafa legið frammi svo að a.m.k. einhver þeirra verði til þess að þjóðin fái að grípa inn í.