139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli þingmannsins kom fram að hann teldi að réttarstaða Íslendinga væri sterk og þeir mundu að öllum líkindum vinna málið. Þetta er kannski ekki alveg í samræmi við þá niðurstöðu sem félagar hans í fjárlaganefnd hafa komist að. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór yfir það áðan að í þeirri óvissu eins og hann kallaði það að ef við mundum ekki samþykkja Icesave-samningana núna þá væri það einfaldlega þannig að stærri þjóðir og sterkari hefðu betur gagnvart þeim minni. Með öðrum orðum, hann gaf í skyn að við ættum einhvern veginn að kikna í hnjánum. Ég spyr því hv. þingmann: Hvernig stendur á því að stór hluti Sjálfstæðisflokksins hefur bráðnað eins og smjör í málinu og gefið algerlega eftir þessa sterku víglínu okkar? Eins og alþingismaðurinn bendir réttilega sjálfur á er réttarstaða okkar sterk.