139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru í salnum til að hlýða á þær ræður sem hér eru fluttar. Ég held að aðrir ráðherrar mættu taka þá sér til fyrirmyndar og ber að fagna því sem vel er gert.

Ég fagna líka því sem kom fram í samtali hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og hæstv. utanríkisráðherra um að rannsaka beri málið, þ.e. aðdraganda og tilurð Icesave-samninganna (Gripið fram í: … samtal.) og sérstaklega þátt Sjálfstæðisflokksins. Ég held að það fari vel á því og mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn að leggja þessum tveimur herramönnum lið til að sú rannsókn fari fram og beiti sér fyrir því að málið verði klárað úr nefnd þannig að við getum hafið rannsóknina svo ekki fenni í slóðina. Ég tel að þetta sé akkúrat mál sem við eigum að rannsaka í þaula. Ekkert mál, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, hefur verið hulið jafnmikilli leyndarhyggju. Það hefur ómældur tími farið í að særa fram alls konar gögn, álit og samninga sem hafa innihaldið gríðarlega áhættumikil ákvæði fyrir Íslendinga.

Hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra hafði miklar áhyggjur af því að við í Framsóknarflokknum hefðum samþykkt að skipa í samninganefndin. Við hefðum komið að þeirri vinnu ásamt öðrum flokkum en værum um leið ekki reiðubúnir að gútera allt sem frá þeirri nefnd kæmi. Nú velti ég því fyrir mér og langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því: Er það þannig að ef stjórnarandstöðuflokkur eins og Framsóknarflokkur tekur þátt í að skipa menn eins og í stjórn Seðlabankans eða Íbúðalánasjóðs að þá þurfi hann um leið að samþykkja allt sem frá þeim stofnunum kemur? Er það þannig? Ég hélt í alvörunni að þó að menn tækju ábyrgð og veldu menn í slíkar stjórnir væru þeir ekki um leið að gefa frá sér hugsjónir sínar og skoðanir heldur mundu taka sjálfstætt á málum þegar þau kæmi fyrir þingið. Það væri forvitnilegt að heyra í hæstv. utanríkisráðherra um þau atriði.

Það eru fleiri atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra fyrst þeir eru viðstaddir. Þau snúast um allt sem átti að gerast ef við mundum ekki samþykkja Icesave á fyrri stigum. Hér héldu menn lærðar ræður og margar frábærar og ég hlustaði á allar með mikilli andakt. Það var fullyrt í þessum ræðum að hér yrði frostaveturinn mikli, Kúba norðursins ef við mundum ekki samþykkja Icesave 1 og Icesave 2. Eru þessir ágætu ráðherrar reiðubúnir að koma fram og viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér? Eru þeir reiðubúnir að koma og viðurkenna að þeim hafi orðið svo illilega á í messunni að það hefði hugsanlega getað stórskaðað Íslendinga? Það væri áhugavert að heyra þeirra skoðun á því vegna þess að báðir lögðu hart að Alþingi að samþykkja samningana og jafnvel þó að alþingismenn hefðu ekki kynnt sér efni þeirra til hlítar, ef ég man rétt.

Ég hef velt svolítið fyrir mér afstöðu sjálfstæðismanna í salnum. Ég spurði hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson út í afstöðu hans og hvað hann mundi gera. Ég hef talið að þetta ræðupúlt væri einmitt vettvangur til að koma á framfæri skoðunum sínum. Ég var litlu nær eftir ræðu hans í kvöld en þessi spurning stendur eftir: Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn að kikna í hnjánum í þessu mikla hagsmunamáli?

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór yfir það áðan að í málum þar sem tveir aðilar deildu og annar væri augljóslega stærri en hinn þá væri það einfaldlega þannig að sá minni yrði að lúffa og gefa eftir. Ég held að í því endurspeglist svolítið afstaða sjálfstæðismanna. Þeir hafa einfaldlega ákveðið að það sé betra að lúffa, það sé betra að gefa eftir í málinu. Þeir hafa reyndar ekki fært neitt sérstaklega góð rök fyrir því en það er kannski aukaatriði frá þeirra bæjardyrum séð. En ég velti fyrir mér, og það væri ágætt að fá svör við því, hvernig staða Íslendinga væri t.d. í makríldeilunni ef menn hefðu haft þau viðhorf. Við getum nefnt fleiri dæmi: Þorskastríðin, t.d. ef menn hefðu kiknað í hnjánum þegar Bretar sendu hingað herskip til að vernda fiskiskip sín. Hvernig væri staða Íslands? Þá deildum við einmitt líka um hagsmuni Íslendinga og ég er ansi hræddur um að engum blandist hugur um að rétt hafi verið að krefjast þess að fiskveiðilögsagan yrði færð í 200 mílur í þrepum og um leið hafi verið gætt að hagsmunum Íslendinga. Þar liggur grunnur samfélagsins. Við höfum náð að tryggja okkur ómældar tekjur úr þeirri auðlind sem sjórinn og það sem í honum býr er okkur. Um leið veltir maður fyrir sér ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haldið þeim viðhorfum á lofti að sá „stóri“ væri einfaldlega þannig úr garði gerður að betra væri að lúffa þá er ég ekki viss um að hagsmunum Íslendinga hefði verið jafn vel borgið. En sjálfstæðismenn hafa samt ákveðið að gera þetta allt að í leyni. Afstaða þremenninganna í fjárlaganefnd, sem sátu þar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, var í leyni allt þangað til álitið birtist rétt fyrir upphaf 2. umr., jafnvel rétt eftir að umræðan var hafin.

Nú veit maður ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn mun gera í þessu máli. Ég spyr hvort þetta sé einhver leikur, pólitískur leikur. Ég hef svolitlar áhyggjur af því. Ekki að ég hafi sérstakar áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum og þeim sem sitja hér fyrir hann. (Gripið fram í.) Ég veit að einstaka þingmenn gætu litið svo á ef þeir væru þannig þenkjandi. Ég hef hins vegar áhyggjur af þeirri pólitík sem þetta felur í sér. Ég taldi að með bankahruninu og öllu sem því fylgdi hefði komið krafa um ný vinnubrögð á Alþingi, t.d. að menn töluðu skýrar, að menn gæfu skýrt upp afstöðu sína og það væri alveg á hreinu hvað þeir ætluðu að gera, en það liggur svolítið í lausu lofti að mínu mati.

Þá komum við aftur að meginástæðu Sjálfstæðisflokksins að treysta sér ekki í dómsmál vegna þess að þeir meti það svo að ef illa færi og málið tapaðist þá væri hagsmunum verr borgið en ella. Þetta er undarleg afstaða í ljósi þess að það hefur í sjálfu sér ekki farið fram neitt mat á þeirri stöðu fyrir utan þrjár línur fjögurra valinkunnra lögfræðinga sem hafa sagt að þeir séu ekki á sama máli um hvaða afleiðingar það hefði. Sjálfstæðismenn voru ekki reiðubúnir að greiða fyrir því í fjárlaganefnd að sérfræðingar gerðu ítarlegra mat á einmitt þeim þætti málsins. Þar finnst mér rökstuðningur sjálfstæðismanna falla svolítið um sjálfan sig og gera málflutning þeirra ótrúverðugan.

Þegar við horfum á þetta mál í heild sinni verður að hafa í huga að hér var annars vegar slegist um hagsmuni Íslendinga og hins vegar Breta og Hollendinga. Þetta er ekki venjulegt mál. Okkur greinir á um leiðir, okkur greinir á um hugsjónir sem eru því marki brenndar að gæta að hagsmunum einhverra. Við höfum á því skiptar skoðanir hvert eigi að fara en þetta mál hefur allan tímann snúist um hvort við eigum að gæta að hagsmunum Íslendinga eða Breta og Hollendinga. Það er undarlegt í því ljósi og kannski enn ríkari ástæða en áður að rannsaka af hverju meiri hluti stjórnarliða hefur lagt svona mikla áherslu á að málið yrði samþykkt á öllum stigum málsins. Fyrir því liggja engin haldbær rök. Þegar maður skoðar málið þá virðast þeir sem telja Íslendingum betur borgið innan Evrópusambandsins líka vilja að Íslendingar greiði fyrir Icesave. Þetta er þó ekki einhlítt og margir skynsamir aðilar hafa ekki látið hugsjón sína um að ganga í Evrópusambandið gera það að verkum að þeir hafi ekki barist gegn Icesave-málinu. En þetta er í rauninni eitthvað sem við verðum að velta upp vegna þess að línurnar hafa skarast svona þegar grannt er skoðað.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég vona að okkur auðnist á morgun að greiða atkvæði með því að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fram hafa komið tvær ágætar tillögur þess efnis og verða greidd atkvæði um þær eftir því hvor þeirra gengur lengra. Ég held að við eigum að treysta þjóðinni í þessu mikla hagsmunamáli. Ef eitthvert mál á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu er það akkúrat Icesave-málið.