140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort aðlögunar- og viðræðuferli að Evrópusambandinu verði fram haldið. Þegar ákveðið var að sækja um aðild sumarið 2009 var einmitt lögð fram tillaga þess efnis að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingarmenn gátu á engan hátt hugsað sér að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram vegna þess að þeir voru hræddir um að þeir mundu tapa. Hefði það verið gert hefði legið fyrir skýr þjóðarvilji um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Nú segir þetta sama ágæta fólk að ekki sé hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ferlið eigi að halda áfram, það verði að klára ferlið. Síðan hafa komið fram hugmyndir ekki ólíkar þeirri sem hér er um það að viðræðurnar verði kláraðar fyrir ákveðinn tíma og fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla ákveðinn dag. Menn segja líka að það sé ekki mögulegt vegna þess að samningarnir taki einfaldlega langan tíma, miklu lengri tíma, og ekki sé hægt að klára þá á 10 mánuðum eða eitthvað því um líkt. Það finnst mér mjög sérstakt og gefur til kynna að ekki sé um einfalda samninga að ræða.

Það er kannski rétt að minna á það í þessu sambandi að þeir sömu ágætu ráðherrar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, töldu að Icesave-samningarnir væru eitthvað sem þyrfti bara að klára fyrir hádegi, að hægt væri að klára þá innan ákveðins tímaramma án þess að menn væru að velta nokkru fyrir sér með það.

Það liggur alveg ljóst fyrir, og hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það í máli sínu, hver staðan er í þessum viðræðum. Það liggur alveg fyrir að búið er að bera saman löggjöf Íslands og Evrópusambandsins. Það er búið að segja okkur hverju við Íslendingar þurfum að breyta. Við eigum það á prenti til að mynda að við erum ekki að fara að fá undanþágu í sjávarútvegsmálum. Við eigum það á prenti að við erum ekki að fara að fá neinar undanþágur í landbúnaðarmálum heldur. Við eigum það á prenti að við erum ekki að fara að taka upp evruna á nokkrum mánuðum.

Við erum hins vegar að hefja þá vegferð að aðlaga okkur að regluverkinu. Núna væri rétti tímapunkturinn til þess, ef menn væru raunverulega að tala um að þetta væru samningaviðræður og vildu ljúka þessu með einhvers konar samningi, að setjast niður. Evrópusambandið getur sagt okkur hvað það er sem við Íslendingar þurfum að breyta. Þá værum við komin með samning og þá væri rétt að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Verði já ofan á í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu væri hægt að hefja hina einu og eiginlegu aðlögun að Evrópusambandinu en verði nei ofan á þá væri þetta mál út úr heiminum.

Það er ekki svo eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á þegar hann var að lesa upp úr ályktunum sem eru komnar frá Evrópuþinginu. Nú er hin eina og sanna aðlögun að hefjast, nú erum við að byrja að vinna í því að breyta regluverki okkar og lögum — og það er ánægjulegt að sjá að einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar lætur svo lítið að vera viðstaddur umræðurnar. Nú erum við að hefja þessa aðlögun og breytingar á okkar regluverki. Það er frumvarp fyrir þinginu um háar fjárhæðir gegn 15–25% mótframlagi úr ríkissjóði til ýmissa aðlögunarverkefna. Einstakar ríkisstofnanir eru farnar að auglýsa eftir starfsfólki. Ríkisskattstjóri auglýsti um helgina eftir starfsfólki til að undirbúa aðlögun að Evrópusambandinu.

Það liggur því alveg ljóst fyrir að þetta eru á engan hátt samningaviðræður sem við erum í. Það liggur fyrir samanburður á regluverki Íslands og Evrópusambandsins. Það er grunnurinn, út frá því ættum við að fara að semja og við ættum ekki að þurfa að hefja þessa aðlögun sem verið að tala um. Hæstv. utanríkisráðherra og ýmsum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar leyfist hins vegar að vaða fram ítrekað, aftur og aftur, og halda því fram að ekki sé um neina aðlögun að ræða.

Hversu langan tíma tekur þessi aðlögun? Timo Summa, sendiherra Evrópusambandsins, hefur látið þau orð falla á fundum að þetta sé allt undir íslenskum stjórnvöldum sjálfum komið, þetta velti allt á því hversu hratt þau geti tekið upp reglur og unnið og breytt íslensku samfélagi. Það sé hægt að klára þau mál á einu ári, það sé hægt að klára þau á fimm árum, þetta fari allt eftir því hversu samstarfsfús umsóknaraðilinn er að breyta regluverki sínu. Til þess eru áætlaðar gríðarlegar fjárhæðir en með mótframlagi úr ríkissjóði, 15–25%, þannig að ljóst er að það mun hlaupa á einhverjum milljörðum. Það eru verkefni, frú forseti, sem ekki geta talist mjög brýn á sama tíma og verið er að skera niður í heilbrigðismálum, hækka skatta á almenning o.s.frv.

Á sama tíma gera menn sem eru að reka þessa umsókn sér grein fyrir því að það er ljóst að rík og mikil andstaða er á Íslandi við Evrópusambandsaðild, hún er að nálgast 70%. Menn gera sér líka grein fyrir því, og það hafa embættismenn og þingmenn á Evrópuþinginu og fleiri sagt í viðræðum við okkur þingmenn, að það er náttúrlega ekki skynsamlegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál meðan ljóst sé að Evrópusambandið muni tapa og það þurfi að vinna mikla vinnu áður en þessi þjóðaratkvæðagreiðsla getur farið fram. Til þess er Evrópusambandið búið að setja á fót svokallaða Evrópustofu sem er stýrt af sendiráði sambandsins og sendiherra Evrópusambandsins er byrjaður á kosningaferðalögum allt í kringum landið. Þessi Evrópustofa áætlar að eyða á þessum árum 200 millj. kr. til kynningar og áróðursstarfs.

Svo að við setjum það í samhengi þá ákvað Alþingi að styrkja já- og nei-hreyfingar til jafns og það sem Evrópusambandið áætlar sjálft að eyða á þessu ári er 20 sinnum meira en nei-hreyfingin hefur til stuðnings frá Alþingi til sama verkefnis, til jafns á móti já-hreyfingunni. Tilgangurinn með þessari Evrópustofu er síðan, og það kom fram í útboðsgögnum þegar hún var sett á fót, að afla fylgis við Evrópusambandsaðild á Íslandi. Menn áætla að það muni kosta einhverja milljarða í heildina, að þetta sé langtímaverkefni og að það þurfi að þreyta laxinn. Það er þess vegna sem menn munu bara treina þetta, menn munu bíða, menn eru að kanna þetta, Evrópusambandið heldur úti skoðanakönnunum og öðru og fylgist með afstöðu landsmanna til aðildar.

Frú forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti Evrópusambandsaðild. Það liggur líka ljóst fyrir að það eru að renna tvær grímur á marga hv. þingmenn sem studdu það á sínum tíma að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, bæði innan stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar. Ég vil nefna einn hæstv. ráðherra og einn hv. þingmann í því sambandi. Hæstv. innanríkisráðherra, sem felldi það á Alþingi sumarið 2009 að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, og studdi það síðan að sótt yrði um aðild, hefur nú varpað fram þeirri hugmynd að festa niður hvenær þessum viðræðum verði lokið. Annar hv. þingmaður, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur sagt að hún vilji kjósa um Evrópusambandsmálið samhliða næstu alþingiskosningum.

Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft sé gríðarlega mikilvægt, frú forseti, að það mál sem við ræðum hér, um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands að Evrópusambandinu, fái skjóta meðferð í þinginu, það fari til nefndar til umsagnar og menn sammælist um að afgreiða málið á þessu vorþingi. Ég tel það gríðarlega mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að við erum að horfa upp á það að margir hv. þingmenn og jafnvel hæstv. ráðherrar eru farnir að hafa miklar efasemdir um stöðu þessa máls og vilja gera það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði ávallt að væri raunin, að Íslendingar réðu sjálfir för í þessu ferli, þeir stilltu sjálfir upp hvernig þeir vildu haga viðræðunum en það yrði ekki á forsendum Evrópusambandsins og því yrði ekki stýrt af Evrópusambandinu.

Ég kalla eftir því við frú forseta að þetta mál fái skjóta meðferð í þinginu, að það verði ekki svæft í nefnd og að það verði tryggt að málið komi til atkvæðagreiðslu áður en þessu þingi lýkur um mánaðamótin maí/júní.