140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands við Evrópusambandið.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis segir það einn mesta ljóð á starfi Alþingis hversu ríkt foringjaræðið er, hversu mikið flokkunum er stýrt af flokksforustunni og að menn leggi mikla áherslu á að koma fram sem ein heild. Það gerðist einmitt þegar við greiddum atkvæði um hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni sögðu 33 hv. þingmenn já, 28 sögu nei og tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði, en í atkvæðaskýringum mjög margra þingmanna, sérstaklega Vinstri grænna, kom fram að þeir væru ekki sáttir við að sækja um aðild. Samt greiddu þeir því atkvæði og af hverju skyldi það hafa verið, frú forseti? Það var vegna þess að þeir töldu það meiri hagsmuni að vera í ríkisstjórn og geta komið vinstri sjónarmiðum sínum á framfæri í stjórn landsins en að taka áhættuna á að sækja um aðild að Evrópusambandinu, enda var viðkvæðið alltaf að menn ætluðu bara að kíkja í pokann og sjá hvað kæmi upp úr honum, svo gætu menn að sjálfsögðu tekið ákvörðun um að vera á móti ef þeim líkaði það ekki. Ég hugsa að fæstir þingmenn Vinstri grænna vilji að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu en um það snýst málið.

Hver vill sjá Ísland sem aðildarríki Evrópusambandsins eftir fimm eða tíu ár þegar öllu ferlinu er lokið? Við stöndum einhvern tímann á þeim tímapunkti því að hann mun koma hvort sem við viljum eða ekki. Þessi fimm ár líða einhvern veginn og þá er spurningin: Er Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu eða ekki? Það er um umsóknarferlið sjálft.

Að kvöldi 16. júlí 2009 lá mikið á, þá birtist umsókn frá Íslandi hjá Evrópusambandinu og hún er algerlega skilyrðislaus. Ekki er talað um að leita þurfi að samþykkis hv. utanríkismálanefndar, ekki er talað um að breyta þurfi stjórnarskrá og ekki er talað um að málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sótt er um aðild að Evrópusambandinu skilyrðislaust, undirritað af hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Í þeirri umsókn er ekki einu sinni talað um viðræður en þær hafa reyndar átt sér stað engu að síður.

Þegar svo var komið að Ísland hafði sótt um aðild að Evrópusambandinu skilyrðislaust kannaði ég stöðu mína sem borgara í þessu landi, hvort ég gæti farið í mál við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að þeir væru að sækja um aðild að ríkjabandalagi þar sem fullveldi Íslands yrði lagt fyrir róða. Hvort ég ætti rétt á því sem borgari í fullvalda ríki að fara í mál vegna þess að einhver ætlaði sér að afsala sér fullveldi Íslands, sjálfstæðinu sem við börðumst fyrir í fjölda ára. Í ljós kom að ég átti ekki aðild að slíku máli. Ég talaði við marga færustu lögfræðinga landsins og þeir sögðu mér að ég sem borgari ætti ekki aðild að því máli. Það væri sem sagt heimilt að fara eitthvert út í heim og framselja sjálfstæði landsins til einhvers ríkjabandalags eða ríkis. Það þótti mér mjög athyglisvert og það er spurning hvort ekki sé ástæða til þess þegar við breytum stjórnarskránni að koma því inn að borgari í landinu hafi aðild að slíkum málaferlum.

Það Evrópusamband sem við sóttum um aðild að 16. júlí 2009 er allt annað Evrópusamband en er í dag. Ef maður lítur svona 60–70 ár aftur í sögu Evrópu hafa þar orðið gífurlegar breytingar. Evrópusambandið var stofnað í upphafi til að reyna að tryggja frið í álfunni. Þjóðverjar og Frakkar höfðu fengið nóg af endalausum stríðsrekstri og merkilegt nokk er það akkúrat það sem hefur tekist. Það má Evrópusambandið eiga að því hefur tekist að halda frið innan sinna vébanda öll þau ár, í þessi 60 ár, og er það að verða einsdæmi í sögu Evrópu að svo langt friðartímabil sé við lýði þannig að Evrópusambandið hefur náð því markmiði. Ég hlýt að gleðjast fyrir þess hönd að það hafi tekist.

Ófriður hefur ekki verið mikið vandamál á Íslandi í gegnum aldirnar öndvert við það sem víða er í Evrópu þannig að það er ekki ástæðan fyrir því að sækja um aðild. Evrópusambandið hefur, eins og ég sagði, breyst alveg gífurlega og það breytist á hverjum einasta degi. Ég sagði að þetta væri eins konar hraðlest sem við hoppuðum upp í sem við vissum ekki hvert færi þegar við sóttum um. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hafði ekki ímyndunarafl til að sjá fyrir mér þá þróun sem orðið hefur síðan. Ég gat ekki séð fyrir mér að innan tveggja, þriggja ára væri komin sú staða í Evrópusambandinu að ríkin hefðu ekki sjálfstæðan fjárhag, að þau gætu ekki ráðstafað fjárlögum sínum að vild. Sú er raunin. Það sem einnig hefur komið í ljós í Grikklandskrísunni í Evrópusambandinu er að það er Þýskaland sem ræður. Þýskaland borgar og Þýskaland ræður, reyndar ræður Frakkland með Þýskalandi. Sarkozy, forseti Frakklands, ræddi nánast vikulega við frú Merkel, kanslara Þýskalands. Talað var um Merkozy í því sambandi og í ljós kom að það er ákveðið lýðræði innan Evrópusambandsins; það eru tveir sem ráða, ekki bara einn, en það er náttúrlega ekki það lýðræði sem menn lofa. Ég hugsa að Finnum, Belgum og öðrum minni spámönnum hafi þótt frekar undarlegt hvernig ákvörðunartakan var í þessum miklu málum gagnvart Grikklandi og hugsanlega gagnvart Ítalíu, Spáni og Írlandi. Vandamálin eru mjög víða og Evrópusambandið hefur breyst alveg óskaplega mikið síðasta hálfa árið. Það er allt annað Evrópusamband en við sóttum um.

Svo koma menn hingað trekk í trekk og lofa að verðtryggingin falli niður ef við tökum upp evru um leið og við göngum í Evrópusambandið — maður er bara gáttaður á því — að allt verði í lagi, sem er alrangt, og að verðtryggingin falli niður, vextir verði lágir og líka vöruverð og ég veit ekki hvað. Það er ekki boðlegt að menn haldi svona fram og það verður gaman að kanna hversu háir vextirnir eru á íbúðalánum í Aþenu akkúrat núna. Svo er dælt inn styrkjum, eins og komið hefur fram í umræðunni, miklum styrkjum sem sumir kalla mútur og eru ætlaðar til að smyrja aðildarferlið.

Athyglisverðast er að hér er lögð fram tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mjög margir hv. þingmenn, sérstaklega í Samfylkingunni, hafa talað mjög fjálglega um þjóðaratkvæðagreiðslur og margir þingmenn í stjórnarliðinu eru mjög hlynntir því að þjóðin komi að málum. Í nýju stjórnarskránni sem stjórnlagaráðið hefur lagt til og er til umfjöllunar í nefndum þingsins er gert ráð fyrir að þjóðin komi að hinu og þessu. Þingmenn allir ættu að fagna því að lagt sé til að aðlögunarferlið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu svo við getum vitað hvort þjóðin vilji að Ísland verði aðildarríki Evrópusambandsins, um það snýst málið. Það snýst ekki um það að kíkja í einhvern poka og vita hvað við fáum af nammi, það snýst um það að Ísland er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrirvaralaust — án nokkurra fyrirvara — og við erum komin í aðlögunarferli sem segir að Ísland muni vera tilbúið til að ganga inn í Evrópusambandið þegar vindurinn blæs rétt úr þeirri átt.