143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins um störf þingsins sem ég tel að við flest hér inni, hv. þingmenn, lofuðum að bæta í síðustu kosningum og tel að við höfum gert. Alla vega hafa skoðanakannanir sýnt aukið traust á Alþingi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að huga að og halda áfram að vinna að.

Mörg mál hafa komið fram í þinginu. Eins og kom fram hér áðan hjá formanni allsherjar- og menntamálanefndar hefur starfið þar gengið mjög vel. Þessi mál hafa farið til nefnda og fengið þar málefnalega umræðu hjá okkur þingmönnum. Þingmenn hafa oft kvartað yfir því að fá ekki að koma nógu mikið að málum og framkvæmdarvaldið sjái of mikið um þetta, það var líka umræða um það þegar þingið hófst. En í nefndastörfum fáum við að koma að málum og öll þjóðin fær að senda athugasemdir við málin og koma sínu á framfæri ef hún vill með aðsendum erindum.

Þessi mál hafa oftar en ekki komið mikið breytt og betrumbætt til baka inn í þingið og mörg þeirra bíða núna afgreiðslu. Sum hafa fengið afgreiðslu en mörg bíða afgreiðslu og vil ég nefna fjölda mála sem hafa komið frá allsherjar- og menntamálanefnd í sátt og samlyndi og ég tala nú ekki um náttúruverndarlögin frá umhverfis- og samgöngunefnd. Þau koma töluvert breytt hingað inn í þingið eftir meðferð þingsins og þingnefnda, þannig að allt hefur þetta gengið vel undir góðri stjórn hæstv. forseta Alþingis. Ég held að við ættum að halda áfram á þessari góðu vegferð, vinna saman að málum, finna réttu lausnirnar og tala okkur niður á lausn og hætta að gagnrýna fundarstjórn forseta sem hefur verið mjög góð hingað til.