143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að gera að umtalsefni loforðin sem voru veitt fyrir kosningar um að bera undir þjóðina hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, ég held að það hafi verið orðað þannig. Klukkan hálftólf í morgun höfðu tæplega 50 þús. manns, nánar tiltekið 49.031, skrifað undir yfirlýsingu sem er svona:

„Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt: Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?“

Eins og ég segi eru þetta tæplega 50 þús. manns. Það er 21% atkvæðisbærra manna í landinu. Þetta eru 25,7% þeirra sem tóku þátt í kosningunum sl. vor. Það eru 1.423 færri en greiddu Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt, það eru 2.894 fleiri en greiddu Framsóknarflokknum atkvæði sitt, nettó — má segja nettó, virðulegi forseti?

(Forseti (EKG): Með góðfúslegu leyfi forseta.)

Takk fyrir. Það er sem sagt 1.471 fleiri en greiddu stjórnarflokkunum atkvæði í síðustu kosningum, í apríl sl.

Þetta skiptir miklu máli, ekki síst í ljósi þess, eins og fram kom í umræðum hér í gær og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir benti rækilega á, að ríkisstjórnin situr alls ekki í eins miklum meiri hluta og endurspeglast á þingi. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa vissulega 60% þingmanna en þeir fengu 51% atkvæða í kosningunum. Þetta stafar af kosningakerfinu, þetta stafar af ójöfnu vægi atkvæða og þetta stafar af því að 12% atkvæða féllu dauð í síðustu kosningum. Kosningakerfið veldur þessu. En þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að loforðið um þetta stóra og mikla hagsmunamál var svo skýrt, að ekki skyldu teknar afdrifaríkar ákvarðanir í því án þess að spyrja þjóðina. Þá skiptir verulegu máli þessi mikla andstaða hér utan húss. Það er furðulegt ef menn ætla ekki að taka mark á henni.

Mér finnst varla boðlegt að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar komi og segi að þeir ætli góðfúslega að leyfa þinginu að fjalla um þetta í nefndum. Það er sú vinnuaðferð sem hér er og ekki neitt til að þakka ráðherrunum fyrir. En enn er fullt af fólki, ég þar á meðal, sem vonar að menn sjái sig um hönd.

Við verðum líka að athuga að þetta bitnar ekki bara á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, það er kannski sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn sem svíkur þau loforð sem ég geri ráð fyrir að kjósendur hans hafi búist við að yrðu uppfyllt, heldur rýrir þetta traust á öllum stjórnmálamönnum. Þetta rýrir traust á því starfi sem við vinnum hér. Ég held að það sé eitt af því sem við eigum öll sameiginlegt, þ.e. að reyna að auka það traust sem menn bera til stjórnmálamanna. Störf þeirra skipta miklu máli. Traust á stjórnmálamönnum hefur ekki verið mikið undanfarin ár og það er síst gott að það minnki.

Það eru líklega efnisatriðin sem menn fara í þegar þeir tala um þjóðaratkvæðagreiðslur. Forustumenn ríkisstjórnarinnar segja núna að ekki sé hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu af því að ekki sé ákvæði um það í stjórnarskránni, þar séu engin ákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna sé ekki hægt að efna loforðið sem kjósendum var gefið. Þá langar mig að spyrja og mér finnst rétt að ráðherrar svari, þeir eru nú engir hér nema utanríkisráðherra situr þarna, eða aðrir, sérstaklega þeir sem hafa talað um að ekki sé hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu nema breytingar séu gerðar á stjórnarskránni: Ætla þessir menn þá að beita sér fyrir því að það verði gert? Ætla þeir að beita sér fyrir því, af því að þeir lofuðu því að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á fyrri hluta kjörtímabilsins, að boðað yrði til kosninga og við notuðum bráðabirgðaákvæðið sem er í gildi núna og breyttum stjórnarskránni þannig að þeir geti efnt loforðið? Er það það sem þeir ætla að gera? Mig langar að spyrja að því.

Síðan tala menn mikið um að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðsla áður en lagt var af stað í leiðangurinn og aðildarviðræður að Evrópusambandinu hófust. Ég segi frá mínum sjónarhóli að ég bauð mig fram fyrir Samfylkinguna og það fór ekkert á milli mála fyrir kosningarnar 2009 að það var baráttumál Samfylkingarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það hefðu verið svik ef við hefðum ekki gert það og verið í ríkisstjórn, svo skýrt var loforðið. Síðan stóð til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðildarviðræðnanna, þegar samningur lægi fyrir. Sannasta að segja hefur umræðan um Evrópusambandið, eðli þess og starfshætti verið þannig hér á landi að ég held að fólk geti ekki tekið upplýsta ákvörðun um neitt í þeim efnum af eða á fyrr en samningur liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Ég vil líka segja það hér að það er mjög mikill munur á því að leggja í leiðangur af því taginu sem gert var sumarið 2009 eða fara fram eins og menn vilja núna með gerræðistillögu hæstv. utanríkisráðherra og loka dyrum, að ég tali nú ekki um í því ástandi sem við erum í núna.

Eins og kom fram í liðnum um störf þingsins áðan og var birt í Viðskiptablaðinu í morgun kosta gjaldeyrishöftin okkur 80 milljarða og ríkisstjórnin er ekki með neitt annað plan um hvernig væri hugsanlega hægt að aflétta gjaldeyrishöftunum. Nú er auðvitað alveg ljóst að það verður ekkert gert á einum degi, en aðild að Evrópusambandinu er þó plan og við hefðum þar stoð af ríkjunum sem eru í sambandinu.

Ég vil einnig segja, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel að EES-samningurinn hafi verið mikið heillaspor og ég er fegin að heyra að menn hafi ekki hugmyndaflug til þess, a.m.k. ekki enn sem komið er, að slíta honum, að við sitjum náttúrlega skör lægra þar en samstarfsríki okkar í Evrópusambandinu. Við erum ekki í herberginu þegar ákvarðanir eru teknar. Við höfum ekki neina möguleika til að taka þátt í þeim málamiðlunum sem verða í Evrópusambandinu yfirleitt þegar ákvarðanir eru teknar. Það er í besta falli barnaskapur að halda að við getum haft einhver meiri áhrif á þessa löggjöf alla ef við fjölgum í starfsliði í Brussel.

Þetta var ekki langur tími sem ég hafði. Það voru þrjár tillögur undir, skildist mér, en það samkomulag er brotið þannig að ég tel að ég eigi eftir að tala í að minnsta kosti tíu mínútur um hinar tvær tillögurnar.