143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við erum hér í efnislegri umræðu um býsna stóra ákvörðun sem í raun er tekin nokkuð einhliða af örfáum einstaklingum. Því finnst mér harla furðulegt að forsætisráðherra sé ekki hér til að taka þátt í umræðum. Mér finnst líka furðulegt að stjórnarliðar taki ekki þátt í andsvörum og vonast til að ræða mín gefi þeim tilefni til að koma í andsvör, til þess eru þau. Mér finnst líka furðulegt hve fáir stjórnarliðar eru í þingsalnum því að við í stjórnarandstöðunni höfum ávallt haldið því fram að við ætlum að fara í þessar ræður út frá efnislegum atriðum. Ég ætla því að vinda mér í þetta úr því að maður hefur allt of stuttan ræðutíma. Ég skil eiginlega ekki hvað við vorum að hugsa þegar við samþykktum að taka þessar umræður á þennan hátt.

Mig langar að fjalla um tvo meginþætti í málinu. Einn er aðkoma þjóðarinnar en mikið er kallað eftir því að fá að taka þátt í þessari ákvörðunartöku. Hinn þátturinn er utanríkisstefna þjóðarinnar almennt séð. Hún hefur sífellt verið að færast nær þjóðum sem við fram að þessum tíma höfum ekki átt margt sameiginlegt með. Að sjálfsögðu er ekkert rangt við að fara út í viðskipti við þjóðir sem við eigum eitthvert erindi við. En það hefur vakið gríðarlega furðu mína, og margra annarra úti í samfélaginu sem hreinlega voru ekki meðvitaðir um það, að við höfum farið í fríverslunarsamstarf við Kína. Sú umræða var nánast ekki til, hvorki hér í þingsal né í fjölmiðlum. Ég hef rekið mig á það að mjög margir sem hafa áhuga á utanríkismálum voru hreinlega ekki meðvitaðir um þá miklu og stóru ákvörðun Íslands. Um er að ræða harla sérstakan samning og ef maður skoðar söguna um sambærilega samninga er ljóst að við höfum keypt köttinn í sekknum eins og það kallast.

Núna eru vinir okkar í Grænlandi að fá til sín um það bil 4 þús. kínverska verkamenn. Ef eitthvað fer úrskeiðis á Grænlandi munum við hafa hugrekki til að standa með vinum okkar þar? Þar búa ekki nema rúmlega 50 þús. manns. Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, ég vonast til að hann muni koma í andsvör við mig um það, hvort við munum eiga von á því að hæstv. utanríkisráðherra sé eins gagnrýninn á aðferðafræði þá sem vinir okkar í alþýðulýðveldinu Kína beita aðrar þjóðir, hvort við munum verða vitni að kólnun í því að gagnrýna þjóðir eins og til dæmis Rússa sem nú hafa farið langt yfir allt sem eðlilegt telst í utanríkisstefnu sinni. Við horfum upp á það að mjög sennilega hefst kjarnorkuvopnakapphlaup að nýju. Úkraína lét af kjarnorkuvopnum sínum og nú spyr fólk sig þar hvort það hafi verið skynsamlegt því að Úkraína er býsna varnarlaust ríki í dag þó að það sé stórt.

Ég hef tekið eftir því að margir úr stjórnarliðinu eru mjög gagnrýnir á Evrópusambandið. Nú erum við í beinum samningum við önnur ríki og mér sýnist á öllu, miðað við ræður frá forseta Íslands, að við séum alltaf að færa okkur dýpra og dýpra í fangið á þjóðum sem búa við eins konar einveldi og mikla kúgun og þar sem illa er farið með það fólk sem býr þar og í nágrenninu, fyrir utan það hvernig farið er með umhverfi, mengun og annað slíkt. Ég er að lesa mjög merkilega bók sem heitir Collapse og fjallar meðal annars um Ísland en líka Kína og fleiri ríki um það hvernig samfélög kjósa að hrynja. Mér finnst mjög margt, í minni þekkingarleit um hvernig ástandið er í Kína og hvernig það mun sennilega þróast, hafa komið fram sem veldur því að ég er mjög áhyggjufull. Ég er mjög áhyggjufull yfir einstrengingshætti þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að því að rjúfa frekar samvinnu okkar við lönd sem við teljum okkur eiga erindi við. Við teljum okkur væntanlega vera Evrópubúa. Ef það hefur eitthvað breyst þá væri mjög gagnlegt að fá frekari upplýsingar um það. Við teljum okkur tilheyra Evrópu frekar en Rússlandi eða Kína.

Eins og ég hef sagt þá finnst mér ekkert rangt við það að hafa egg í mörgum körfum en það er nú þannig að í gegnum EES höfum við ofið okkur mjög þétt upp að Evrópu. Ég hef ekki orðið vör við að það hafi haft þannig afleiðingar í samfélagi okkar — nema útrásarvíkingar sem notuðu sér glufur í EES-samningnum til að ná sér í sparnað hjá öðrum en bara Íslendingum og þenja út bankakerfið. En almennt séð hef ég ekki orðið vör við að það hafi orðið okkur til skaða. Mig langar að vita hvort eitthvað hafi komið fram, undanfarið ár eða svo, sem gefur tilefni til að fara svona skarpt í að rjúfa samvinnu okkur við Evrópusambandið. Það hefur verið alveg ljóst að ef við ætlum að slíta samningaviðræðunum þarf að vera einhver áætlun um EES-samninginn því við erum náttúrlega að fara á skjön við þann samning þegar kemur að gjaldeyrishöftum.

Ég hef ekki heldur orðið vör við neina framtíðarsýn um gjaldmiðilinn og nokkuð ljóst að ákveðin kynslóðaskil eru orðin hérlendis þegar kemur að framtíðarsýn. Eldri kynslóðin vill mjög gjarnan halda í gamla kerfið, halda sig við krónuna og verðtrygginguna, á meðan yngri kynslóðin sér ekki mikla framtíð hér. Ég er mjög hrædd um að sá flótti sem vart hefur orðið hjá ungu og vel menntuðu fólki muni halda áfram og að fólk komi ekki aftur heim. Ég veit að þingmenn Framsóknarflokksins, meðal annars hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ræddu tillögu um að breyta námslánum til að þeir sem ætluðu að vera áfram úti fengju ekki námslán eða eitthvað slíkt. Ég man ekki alveg hvernig tillagan hljóðaði en það eru augljósar áhyggjur af þessu, meðal annars hjá samþingmönnum hæstv. utanríkisráðherra.

Nú er ég næstum búin með ræðutímann en ég á eftir að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég vona að einhver spyrji mig út í það í andsvörum. Ég studdi tillögu frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að við mundum halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samningana áður en haldið væri í þá og afstaða mín hefur ekkert breyst. Mér finnst mjög mikilvægt að þjóðin fái að vera með í ráðum um framtíð sína. Það væri mjög gott að heyra í stjórnarliðum hvort þjóðaratkvæðagreiðslur séu bara eitthvert fyrirbæri sem sé í lagi ef maður er í stjórnarandstöðu.