143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:38]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það má ekki skilja orð mín þannig að ég lýsi því hér með yfir að þetta sé næsta eðlilega skrefið, það er ekki það sem ég er að segja. Ég segi að ég trúi því að ef þessi tillaga fer til nefndar geti hún fengið það góða vinnu og komið þá út betri og sterkari en hún er í dag, en ég tek vissulega undir það að mér fyndist eðlilegra og betra ef þessi tillaga hefði aldrei orðið til. En úr því að hún er til þá væri hægt að leysa hana með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og fram kemur á þeim vef sem hún vísar til.