146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar á þessum degi að tala um störf þingsins síðustu daga. Þau bera keim af þeim lokadegi sem væntanlega er að renna upp og er í nánd. Ég hef gert athugasemd við það áður í þessum stól að mér fyndist betri bragur á því að við myndum semja um málaskrá og þinglok í staðinn fyrir þær hefðbundnu löngu umræður sem fara fram í þinginu núna. Þær hafa að vísu verið góðar en ég held að það sé mikilvægt að við reynum sameiginlega að semja um þinglokin, gera þetta með þeirri reisn sem þinginu ber.

Ég er ekki að kenna einum eða neinum um það að staðan sé svona en ég held að við öll þurfum að taka það til okkar að finna sameiginlegar niðurstöður í þinglok. (SJS: Taktu bara forystu í málinu.) Mig langar líka … (Gripið fram í.) (SJS: Taktu forystu í málinu.) — Já, ég skal gera það. Þá væri örugglega búið að klára þingið.

Ég vil líka segja um umræðuna í samfélaginu undanfarna daga um að setja stjórn yfir Landspítalann að það kemur á óvart hvað stjórnendur spítalans eru viðkvæmir fyrir henni. Sjálfur var ég á sínum tíma í stjórn sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í ein átta ár, en stjórnir yfir sjúkrahúsunum á landsbyggðinni voru settar af árið 2000. Ég er algjörlega sannfærður um að það hafi verið mikil afturför fyrir sjúkrahúsin þegar þessar heimastjórnir voru settar af. Ég held að fyrirtæki sem velta u.þ.b. 60 milljörðum með 5.000 starfsmenn, 4.000 stöðugildi, þurfi virkilega að hafa stjórn. Ekki það að ég vantreysti þeim sem stjórna spítalanum núna heldur er það bara eðlilegt að fulltrúar eigendanna, kjörnir aðilar komi að fyrirtækinu til að hjálpa … (BjG: Faglega sýn …) — Faglega sýn? (BjG: Alls staðar …) Algjörlega, já. Við erum bara sammála um það, (Forseti hringir.) þannig að ég legg til að þeirri umræðu verði haldið áfram.