146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil bregðast örlítið við ummælum sem hér hafa fallið vegna hugmyndar sem hefur verið nefnd varðandi einhvers konar stjórn yfir Landspítala – háskólasjúkrahús. Ég var að rifja það upp í huganum að fyrir tveimur áratugum eða svo, kannski aðeins lengur, þá var rekin hér af ríkisstjórn, sem ég studdi og tel að hafi gert margt gott, stefna sem gekk út á það að draga úr stjórnum opinberra stofnana sem voru ef segja má almenna reglan hér á árum áður en eru fátíðari í dag. Þetta var samkvæmt ákveðinni hugmyndafræði um nýskipan í ríkisrekstri og meðal þeirra stjórna sem lögð var niður á þeim tíma einhvern tímann á 10. áratugnum var stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Ég held að menn þurfi nú ekki að fara á taugum þótt menn velti fyrir sér hvort ástæða sé til þess að hverfa með einhverjum hætti frá þeirri stefnu sem þá var ríkjandi. Ég held að stjórnir yfir opinberar stofnanir geti verið gagnlegar og orðið til þess að styrkja þær. Ég held að það verði að meta í hverju tilviki fyrir sig og held að við getum ekki útilokað umræður um það, sérstaklega þegar um er að ræða jafn stóra stofnun sem gegnir þýðingarmiklu hlutverki eins og Landspítala –– háskólasjúkrahús. (Gripið fram í: … skoðun?) Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem hér hefur verið hafin um þau mál og vonast til þess að við getum þróað hana áfram með það að markmiði að efla þessa stofnun og styrkja hana.