146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn um fimm ára ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er án vafa mikilvægasta mál þessa þings. Ég er núna að koma í mína aðra ræðu þar sem tími vannst ekki til að klára þá yfirferð sem ég hafði hugsað mér að fara í. Við skulum sjá hvað ég kemst langt að þessu sinni.

Mig langar í þessari annarri ræðu minni, að ræða m.a. betur um þátt sveitarfélaganna í fjármálaáætlun en þau falla undir málefnasvið númer 8. Mikil breyting hefur átt sér stað á umfangi starfsemi sveitarfélaga á síðustu tveimur til þremur áratugum. Fjölmörg verkefni sem áður voru á hendi ríkis hafa verið flutt til sveitarfélaga og er þeirri þróun ekki lokið enn. Sem dæmi má nefna rekstur grunnskóla og þjónustu við fatlaða. Þetta hefur aukið hlut reksturs og efnahags sveitarfélaga í starfsemi hins opinbera. Hin aukna hlutdeild sveitarfélaga í starfsemi hins opinbera endurspeglast m.a. í því að starfsmenn þeirra eru nú fleiri en ríkisins og tekjur þeirra eru um þriðjungur tekna hins opinbera.

Tilhneigingar hefur gætt til að leggja meiri áherslu á ríkisfjármál en fjármál sveitarfélaga við hagstjórn en í ljósi aukins umfangs þeirra er sífellt mikilvægara að horfa til hins opinbera í heild líkt og ný lög um opinber fjármál kveða á um. Ríkisendurskoðun tók undir að raunveruleg staða sveitarfélaga þurfi að endurspeglast í fjármálaáætlun og getu þeirra til skuldaniðurgreiðslu. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis með fulltrúum Ríkisendurskoðunar kom skýrt fram að þeirra mat sé að afkomumarkmiðin gangi alls ekki upp gagnvart sveitarfélögunum og að slík áætlun sé auðvitað alveg galin. Það er t.d. verulega sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að í fjármálaáætlun er ekki sérstök umfjöllun um húsnæðismál.

Ég get tekið undir orð Ríkisendurskoðunar um að ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára sé snargalin þar sem ekki er tekið tillit til raunverulegrar stöðu sveitarfélaganna og að raunhæf afkomumarkmið eru ekki til staðar.

Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. apríl er í takt við þetta álit Ríkisendurskoðunar en þar segir m.a. að sambandið hafi bent á í umsögn sinni um fjármálastefnuna frá 17. febrúar að það telji að afkomumarkmið þau sem fjármálastefnan gengur út frá séu óraunsæ og ekki í takt við samþykktar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Afkomumarkmið fyrir A-hluta sveitarfélaga í fjármálaáætlun eru önnur en þau sem fram koma í fjármálastefnu án þess að gerð sé grein fyrir þeim í frávikum fjármálaáætlunar. Árin 2017 og 2018 er í fjármálaáætlun reiknað með lakari afkomu sveitarfélaga en í fjármálastefnu, en betri afkomu 2020–2022.

Um þetta frávik hefur ekkert samráð verið haft við sambandið, ekki frekar en um aðra þætti fjármálaáætlunarinnar, þar á meðal 5. kafla sem fjallar um fjármál sveitarfélaga. Ég gagnrýni auðvitað harðlega samráðsleysið við Samband íslenskra sveitarfélaga og þær hæpnu forsendur sem gefnar eru til grundvallar þeim þáttum er lúta að afkomu sveitarfélaganna. Sambandið gagnrýnir samráðsleysið við mótun fjárhagslegra viðmiða um afkomu og efnahag sveitarfélaga og ég ítreka að í 11. gr. laga um opinber fjármál er að finna ákvæði um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga. Ber ráðherra að tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélögin við mótun fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Vonandi verður bragarbót gerð á þessum þætti í framtíðinni. Til að vera sanngjörn erum við öll í raun að vinna málið með þessum hætti í fyrsta sinn og því e.t.v. eðlilegt upp að vissu marki að framkvæmdin sé ekki fullkomin. Samt sem áður eru þessi vinnubrögð langt frá því að vera nógu góð og uppfylla tæplega þær kröfur sem lög um opinber fjármál gera ráð fyrir varðandi framkvæmd laganna.

Hæstv. forseti. Mig langar einnig til að grípa aðeins niður í umsögn fjármálaráðs um afkomu sveitarfélaganna og samspil fjármálastefnu og fjármálaáætlunar þar að lútandi. Þar segir m.a. með leyfir forseta:

„Tekjur sveitarfélaga eru háðar sveiflum í hagkerfinu. Á tímum efnahagsuppgangs aukast tekjurnar en dragast saman þegar hagkerfið dregst saman. Í þessu sambandi er rétt að benda á að óvissa um áætlaða þróun eykst eftir því sem lengra er horft fram í tíma. Af þessu leiðir að óvissa um hagvöxt er meiri á seinni hluta tímabilsins en á fyrri hluta þess. Því ríkir jafnframt mikil óvissa um hvort nægilegur afgangur muni verða af heildarafkomu á seinni hluta tímabilsins til að ná yfirlýstum markmiðum fjármálaáætlunarinnar.

Ef meta skal hvort áætlanir um heildarafkomu A-hluta sveitarfélaga uppfylli grunngildi um sjálfbærni og stöðugleika er nauðsynlegt að hafa mælikvarða á óvissu þeirrar hagspár sem lögð er til grundvallar. Ef þær hagfelldu hagspár sem liggja til grundvallar fjármálaáætluninni rætast ekki, t.d. ef spár um hagvöxt ganga ekki eftir og hagvöxtur verður minni á seinni hluta tímabilsins, er ólíklegt að sveitarfélögin nái að sýna þann afgang í heildarafkomu A-hluta sem gert er ráð fyrir. Þá þyrftu að koma til aðrar aðgerðir, eigi afkomumarkmið áætlunarinnar að ganga eftir. Það myndi bæði styðja við stöðugleika og festu að gera grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið verður til ef forsendur breytast.“

Í umsögn sambandsins, SÍS, kemur einnig fram gagnrýni á hversu lítil áhersla er lögð á sveitarstjórnarmál í fjármálaáætluninni. Meðal þess sem fram kemur er að unnið sé að því að efla sveitarstjórnarstigið, breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og auknu samráði við íbúa varðandi stefnumörkun. Hins vegar er engin framtíðarsýn fyrir málaflokkinn lögð fram og ekki gerð grein fyrir þeim leiðum sem fara á til að ná settum markmiðum. Engin framtíðarsýn og leiðir að markmiðum ekki skýrðar. Hvað er það í ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára? Á bara að tala um stefnumótun og markmiðssetningu en ekki starfa í samræmi við það? Mér er spurn.

Ég á enn erfitt með að trúa að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki lagt fram breytingartillögur við þennan þátt fjármálaáætlunar þar sem það er algerlega morgunljóst að svona getum við ekki afgreitt málið frá okkur. Það væri fullkomlega ábyrgðarlaust.

Í áætluninni er heldur ekki að finna tímasetningu helstu fjárfestinga en einungis vísað til forgangsröðunar stjórnvalda án rökstuðnings. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis og fjármálaráðs kom fram að engar rannsóknir liggja fyrir á mögulegum mismunandi margfeldisáhrifum framkvæmda eftir landshlutum. Þenslan er ekki til staðar í öllum landshlutum, síður en svo, og til þess verðum við að taka tillit þegar forgangsröðun framkvæmda er ákvörðuð.

Samtök iðnaðarins segja í umsögn sinni frá 26. apríl að mikilvægt sé að halda aftur af útgjaldaaukningu hins opinbera en á sama tíma sé ekki hægt að horfa fram hjá brýnni fjárfestingarþörf í innviðum. Samtökin benda á að opinbert fjárfestingarstig sé lágt og afleiðingar þess eru þær að innviðir rýrna sem dregur úr samkeppnishæfni samfélagsins. Á fundi með fulltrúa Samtaka iðnaðarins kom m.a. fram að nú væri lítið að gera í jarðvinnuverktöku vegna lágs framkvæmdastigs við vegagerð og virkjunarframkvæmdir.

Í ljósi þessa verð ég að segja að framsýni á þessu sviði skortir algerlega í fjármálaáætlun. Ætla menn í alvörunni að halda að sér höndum þegar uppgangur er í efnahagslífinu, eins og þeir gera þegar niðursveiflan er? Ég spyr: Hvenær er rétti tíminn til að framkvæma ef ekki nú? Ætlum við að láta allt grotna niður? Ég vona ekki.

Svo virðist vera þegar stefna ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum er skoðuð. Þar skilar ríkisstjórnin í raun auðu — já, ótrúlegt en satt, hún skilar auðu. Ef við viljum fá betri og öruggari vegi skulum við bara greiða vegtolla. Þvílík stefna.

Hvað samgöngur varðar og framkvæmd áætlana almennt, eins og t.d. samgönguáætlun, löggæsluáætlun og síðast en ekki síst fjármálaáætlanir sveitarfélaga, ætti þetta allt saman að vinnast í samræmi hvað við annað. Við erum ekki enn þá komin á þann stað en ættum að sjálfsögðu að stefna þangað, þ.e. samræma tímabilin, miða t.d. lykiláætlanir við fimm ár og taka tillit til fyrirliggjandi áætlana þegar fjármálaáætlun er unnin. Nú er þetta einhvern veginn hálfsamhengislaust og þegar maður bendir á það yppta sumir menn jafnvel öxlum. Við verðum að vera samstiga um að breyta þessum hlutum ef við ætlum að ná markmiði laganna, þ.e. agaðri hagstjórn, fyrirsjáanleika og stöðugleika. — Þar sem ég horfi nú á hv. þm. Harald Benediktsson, formann fjárlaganefndar, vil ég hrósa meiri hluta nefndarinnar fyrir það sem fram kemur í áliti hans um akkúrat þennan þátt, þessa samræmingu áætlana og kannski tímamarka, þannig að við séum í rauninni að stefna að raunhæfum markmiðum, að þetta hangi saman. Það er tilgangur laga um opinber fjármál, að við séum að vinna innan ramma til þess að tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika og auka agann, eins og ég sagði áðan. Meiri hlutinn fær plús fyrir það og við erum sammála um að þetta sé leiðin sem við þurfum að reyna að vera samstiga á.

Þá komum við að samvinnunni sem er mér afar hugleikin. Þrátt fyrir að vera fámenn þjóð með pínulitla stjórnsýslu, við þekkjumst mikið innbyrðis og allt það, erum við enn föst í að vinna hvert í sínu boxi. Samtal og samráð verður að aukast. Að mínu mati hefur núverandi ríkisstjórn alls ekki bætt þann þátt þrátt fyrir yfirlýst markmið þar að lútandi, þ.e. ef marka má umsagnir hagsmunaaðila.

Rauði þráðurinn í þeim umsögnum sem ég hef lesið er að það skorti samráð, ekki er byggt á fyrirliggjandi áætlunum er varða málefnasviðin, framsetning er ógagnsæ og markmið óraunsæ, eins og t.d. afkomumarkmið sveitarfélaga. Það versta er, sem ég veit að mun koma í bakið á okkur, að stór málefnasvið eru vanfjármögnuð. Umhverfismálin eru eitt þessara málefnasviða sem ég hef verulegar áhyggjur af þar sem þau eru með allra mikilvægustu málaflokkum næstu áratuga. Mikilvægi málaflokksins endurspeglast hins vegar ekki í fjármálaáætlun.

Það er svo margt sem ég á eftir að segja að ég verð að biðja hæstv. forseta að skrá mig í aðra ræðu hér og nú, ég sé að ég kemst ekki yfir helminginn. En mig langar til að víkja aðeins að orkumálunum. Þau eru einnig afar mikilvægur málaflokkur er varða uppbyggingu atvinnulífsins sem og jafnræði til búsetu um land allt.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu málefnasviði þar sem erfitt er að sjá hvernig ríkisvaldið hyggst koma að því að tryggja orkuöryggi á öllu landinu, m.a. til að uppfylla aðrar áætlanir eins og fram kemur í þingsályktun um orkuskipti, hvað þá verkefni til að flýta þrífösun rafmagns en því á að vera lokið 2034 við núverandi áætlanir. Sú framkvæmd er afar mikilvæg þannig að hægt sé að stunda nútímalegan atvinnurekstur á öllu landinu því að öll stærri tæki byggja nú á þrífösun rafmagns. Einnig má nefna áhugavert verkefni um að auka hlut varmadælna eða hitaveitna í því skyni að lækka orkukostnað á köldum svæðum og/eða minnka notkun dísilrafstöðva. Framsóknarflokkurinn gagnrýnir þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þar sem hún ber ekki vott um vilja til að jafna búsetuskilyrði fólks og styðja við uppbyggingu atvinnulífs um land allt.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór ágætlega yfir stöðu orkuöryggis og þær gríðarlegu efnahagslegu afleiðingar sem rafmagnsleysi getur haft í för með sér í umræðunni áðan undir liðnum um störf þingsins fyrr í dag. Sá skaði sem rafmagnsleysi getur valdið á stórum landshlutum, og hún nefndi svæðið frá Vopnafirði og allt niður að Kirkjubæjarklaustri fyrir ekki svo löngu síðan, virðist vera stórkostlega vanmetinn og aðeins lítið brot af þeim skaða tekið inn í útreikningana þegar menn eru að gera það. Þetta verður að skoðast og mér heyrist að orkuöryggismálin fari jafnvel í einhvern ákveðinn farveg innan þingsins á næstunni og það er vel.

Eins og ég segi þarf ég að stökkva hérna yfir góðan hluta. Mig langar að nefna aðeins lýðheilsuna. Ríflega 40% af öllum útgjöldum ríkissjóðs fara til velferðar- og heilbrigðismála. Þjóðin er að eldast og ljóst er að við þurfum að vera með gott plan ef við ætlum áfram að veita öllum góða heilbrigðisþjónustu. Kerfið okkar eins og það er í dag einkennist of mikið af viðgerðum. Við getum sparað mikla fjármuni í heilbrigðiskerfinu með því að hafa lýðheilsustefnu að leiðarljósi í allri stefnumörkun, bæði ríkis og sveitarfélaga. Við búum svo vel að geta leitað í reynslu nágrannalanda okkar sem hafa mörg hver þegar markað sér skýra stefnu í þessum málum. Við eigum fjöldann allan af færum sérfræðingum á þessu sviði og almennur áhugi fólks á heilsu fer vaxandi. Bætt lýðheilsa er sameiginlegt verkefni almennings, sérfræðinga og síðast en ekki síst stjórnvalda.

Að þessu sögðu eru mér það gríðarleg vonbrigði að sjá hve lítil áhersla er lögð á lýðheilsumálin samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun en fjármagnsaukning til málaflokksins er lítil sem engin. Það lýsir algjöru metnaðarleysi gagnvart lýðheilsu og þeim verkefnum sem þar falla undir. Aukin áhersla á lýðheilsu er auðvitað sparnaður til framtíðar, sérstaklega þar sem þjóðin er að eldast og vitað að færri hendur munu vera til staðar til að halda uppi heilbrigðiskerfinu í framtíðinni. Auðvitað eigum við að leggja aukna áherslu á lýðheilsu, auðvitað eigum við að gera það — en, nei, þessi ríkisstjórn ætlar ekki að gera það.

Skammsýni í stað framsýni er einkennismerki núverandi ríkisstjórnar.