146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:16]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom aðeins inn á sjúkraflutninga í landinu og talaði um Noreg. Þar þykir mér gæta töluvert mikillar vanþekkingar á málum. Í Noregi eru stundaðir sjúkraflutningar með flugvélum frá sjö mismunandi stöðum, og með þyrlum. Norðmenn skipta landinu niður í sjö svæði, sambærilegt við það að Landspítalinn sinnir öllu landinu. Frá öllum þessum svæðum eru reknar flugvélar og þyrlur. Tromsø er besta dæmið fyrir okkur Íslendinga að sjá hvernig Norðmenn gera þetta. Þar eru svipaðar fjarlægðir og annað, 250–450 kílómetra loftlínur, þá sinna þeir því með flugvélum, en öðrum með þyrlum. Mér þykir því mjög slæmt ef á hinu háa Alþingi sé verið að fara með kolrangt mál um hvernig frændþjóðin sinnir sínum málum. Ég vildi koma þessu á framfæri. Hefur hv. þingmaður kynnt sér málefni sjúkraflugs í Noregi svona ítarlega þegar hann hefur þetta hérna uppi?