146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:18]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, takk fyrir svarið. Ég held nefnilega að hjá okkur mörgum hér á þingi væri mjög æskilegt að við kynntum okkur þessi mál vel. Þetta er mikilvægt og stórt mál. Sjúkraflutningar á Íslandi eru með þeim hætti að um 85% eru með sjúkraflugvélum og 15% með þyrlum. Eins og við þekkjum í umræðu sem ég tók hér, í sérstakri umræðu fyrir stuttu síðan, er hugmyndin að kaupa þrjár stórar þyrlur, af svipaðri stærð og er í dag. Það er vegna landhelginnar, efnahagslögsögunnar, fjarlægða og annars, þær þurfa að hafa drægi. En þetta eru stórar og miklar vélar. Það má reikna með að á flugtíma geti þetta verið þrefaldur, fjórfaldur kostnaður að flytja með svona stórri þyrlu á við flugvél. En ég er ekkert að útiloka að menn skoði þyrlumálin með það í huga að reyna að fá smærri þyrlur í einhverja flutninga. En sjúkraþyrlur leysa ekki sjúkraflugvélar á Íslandi af hólmi á allan hátt. Það verður seint.