146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða ræðu og samanlagt er hann búinn að fara ágætlega yfir athugasemdir sínar varðandi þetta mál. Það væri að æra óstöðugan að fara ofan í hvert og eitt efnisatriði í svo stuttu máli. En það sem hv. þingmaður hefur sagt um formið hefur mér þótt áhugavert því að ég sem óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hef þurft að kljást við þetta sama form og kannski er það enn meiri slagur fyrir okkur í hinum fagnefndunum sem ekki sitjum í hv. fjárlaganefnd. Við höfum horft upp á það að reyna að skilja hver ramminn er. Látum uppsetninguna vera, það eru ekki tölur yfir árið 2017, maður sér ekki hækkunina almennilega heldur þarf maður að viða að sér upplýsingum héðan og þaðan.

En hv. þingmaður kom ágætlega inn á stofnanir sem væru í mikilli óvissu um hvaða stöðu þessi fjármálaáætlun málaði upp fyrir þær næstu árin. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd upplifðum að fólk var í mikilli óvissu. Sumir voru uggandi um framtíðina af því að þeir vissu ekki hvað yrði, hvort einhver hækkun sem jafnvel hafði verið talað um eða lofað, rúmaðist innan þessarar tillögu eða ekki.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann og nýta mér þá stöðu að fletta aðeins upp í honum hvað varðar formið af því að ég veit að hann hefur skoðað það vel: Hvernig er hægt að setja svona fram á skýrari máta?