146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já. Það er alveg á hreinu að mennta- og menningarmál ríða ekki feitum hesti frá þessari áætlun. Ég átta mig alveg á því að hingað koma hæstv. ráðherrar upp og segja: Við þurftum að forgangsraða í heilbrigðismálin. En við getum alveg snúið þessari fullyrðingu við og sagt: Við vorum bara ekki reiðubúin að afla þeirra tekna sem þurfti til þess að standa undir almennilegu menntakerfi. Það þýðir nefnilega ekki alltaf að benda á heilbrigðismálin og gera ekkert í því að horfa til framtíðar og sækja fram. Hvort sem er á sviði íslenskrar tungu eða annarra fræða.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir hér. Ég er algerlega sammála honum. Mér finnst það ekki góð skilaboð að forsætisráðherra segi sig frá Vísinda- og tækniráði því að hugsunin á bak við það á sínum tíma þegar það fyrirkomulag var sett á laggirnar var að stefnumótun í menntun, vísindum og nýsköpun ætti að eiga sér stað í gegnum allt stjórnkerfið. Það væri ástæðan fyrir því að forsætisráðherra færi fyrir þeim málaflokki, til þess að leggja aukna pólitíska vigt því að þarna lægju framtíðaráform. Ég segi fyrir mig að mér finnst þessi breyting, ef við lesum eitthvað í hana, í raun og veru færa þennan málaflokk inn sem einkamál mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem það er ekki, og við vitum að hefur minni pólitíska vigt, alveg óháð þeim ágætu einstaklingum sem gegna þessum embættum, en embætti forsætisráðherra. Þannig að auðvitað eru þetta skilaboð, en þetta eru ekki góð skilaboð. Ekki góð skilaboð fyrir þá sem vilja að Ísland byggist upp í kringum hugvit, að við verðum ekki einhverjir þolendur í tæknibyltingunni sem er fram undan heldur gerendur í þeirri tæknibyltingu, að við ætlum ekki að sitja hjá og horfa á tækifærin hlaupa fram hjá okkur heldur skapa þessi tækifæri. Það gerum við ekki nema með fjárfestingu í þessu og það þarf ekkert að segja hv. þingmönnum það. Þeir hljóta að vita að þegar við mælum hagsæld helst hún í hendur (Forseti hringir.) beint við framlög til rannsókna, vísinda og menntunar.