146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Gagnsæið sem allir tala svo hátíðlega um á tyllidögum — það má nú velta því fyrir sér hvaða hugur fylgi máli, þegar við fáum svona fjármálaáætlun fram setta, sem er höfð eins ógagnsæ og mögulegt er. Og þegar menn vilja jafnvel fara að banna Landspítalanum að skýra sín mál og tala þá efast maður nú svolítið um að hugur fylgi máli um það gagnsæi.

Ég hef gagnrýnt útgjaldaþakið alveg sérstaklega. Ég held að við hefðum þurft að hafa meiri og sterkari fókus á því þegar það var hér til umræðu í janúar vegna þess að það er svo tryllingslega vitlaust. Það er svo yfirgengilegt að setja þessa viðbótargirðingu inn í fjármálastefnuna sem lögin um opinber fjármál kölluðu ekkert á, það var bara tilbúningur núverandi ríkisstjórnar að setja þessa snilld inn. Að sjálfsögðu ef niðursveifla verður, ef svo illa færi að hér kæmi ár þar sem landsframleiðslan beinlínis drægist saman, þá erum við alveg uppi í þakinu núna. Þetta er um það bil 41% af vergri landsframleiðslu núna, hálfs prósents borð fyrir báru. Þannig að smásamdráttur þýddi að menn rækjust á þakið. Hvað gera menn þá? Þá þurfa menn að skera niður eða afla tekna. (Forseti hringir.) Það mun þessi ríkisstjórn ekki geta og vilja, þannig að það væri ávísun á niðurskurð aftur, á versta tíma fyrir samfélagið. Því þegar slær í bakseglin er svo mikilvægt (Forseti hringir.) að geta mildað það áfall í samfélagslegu tilliti með því að gefa frekar í en hitt.