146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann talaði um okkur Sjálfstæðismenn sem sjálfstæðisstubbana og hér er einn mættur, það er bara þannig, í einn og sjötíu klúbbnum.

Það sem ég vildi aðeins koma inn á er það að þegar við reiknum inn í fjármálaáætlunina hækkun útgjalda á milli ára erum við, meiri hlutinn, með þetta hjá okkur í fjármálaáætluninni svona 4% og upp í 7% á þessu tímabili. Hv. þingmaður minntist á breytingartillögu 1. minni hluta í fjárlaganefnd frá Vinstri grænum, ofan á þessar prósentur er verið að bæta — þetta er svolítið yfirtoppað hjá meiri hlutanum, um 215 milljarða hækkun — en Vinstri grænir toppa þetta vel og bæta við 295 milljörðum, þannig að samtals eru þetta 510 milljarðar ef við tökum breytingartillöguna með. Þannig að milli einstakra ára í fjármálaáætluninni 2018, 2019, 2020, 2021, 2022, er hækkunin á bilinu um 11,5% upp í 12,8%.

ASÍ, fjármálaráð og fleiri gerðu miklar athugasemdir við það í fjárlögunum sem voru samþykkt í desember hversu mikil hækkun var þá, 8,5%, og þótti óráðlegt, það kom víða fram. En þarna er verið að leggja til í breytingartillögunni að menn fari upp í 11,5–12,8% á milli ára.

Hv. þingmaður sem flutti mál sitt áðan, reyndur maður úr fjármálaráðuneytinu og þekkir hagstjórnina — ég held að í sögulegu samhengi séum við að tala um tölur sem hafa ekki sést hér áratugum saman í hagsögu Íslands, þurfum að fara mjög langt aftur. Þess vegna vil ég heyra: Telur hv. þingmaður það vera ráðlegt að fara í slíkar tillögur í útþenslu í því ástandi sem er núna að hækka hér ríkisútgjöld um (Forseti hringir.) 11,5–12,8% á milli ára næstu fjögur, fimm ár?