146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:01]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hennar áðan. Af því að hv. þingmaður situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá er áhugavert það álit sem hún og hv. þm. Jón Þór Ólafsson skiluðu af sér þar sem þau benda á þingsályktun um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, svokölluð OPCAT-bókun. Ég velti fyrir mér vegna þess að hv. þingmaður eða þingmenn benda einmitt á það að ekki hafi verið tryggt nauðsynlegt fjármagn til að fylgja eftir þessari þingsályktun um fullgildinguna og vísa þar til ábendinga umboðsmanns Alþingis þar að lútandi, þar sem tilgreindar eru heilar rúmar 38 millj. kr. á ársgrundvelli sem þurfi til að fylgja þessari fullgildingu eftir. Hver er skýring hv. þingmanns á þessu? Er ekki um fjárhagslegt svigrúm að ræða til að fylgja þessu eftir eða er hreinlega um áhugaleysi að ræða? Mig langar svolítið til að heyra það frá hv. þingmanni.