149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

380. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir fundarstjórn forseta. Ég vil byrja á að nefna aðeins dagskrá þingsins. Á dagskrá eru fjögur mál sem myndu teljast til loftslagsmála. Kolefnismerking á kjötvöru sem var að ljúka, þetta mál um árangurstengingu kolefnisgjalds og síðar á dagskrá þessa fundar er mál um tekjuskatt eða frádrátt vegna kolefnisjöfnunar og síðan uppgræðslu lands og ræktun túna. Allt mál sem eru í raun og veru loftslagsmál og má svo sem færa rök fyrir því að sum önnur mál á listanum séu það líka. Mig langar til að hrósa þinginu fyrir þennan áhuga sem það sýnir greinilega þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki.

Þessi þingsályktunartillaga, þingmannatillaga, fjallar um árangurstengingu kolefnisgjalds og er flutt af þingflokki Pírata. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á kolefnisgjaldi á þá leið að gjaldið hækki eða lækki í samræmi við árangur við að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum árið á undan og markmið við að ná kolefnishlutlausu Íslandi fyrir 2040. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á vorþingi 2019.“ — Það er mjög fljótlega.

Í greinargerðinni er fjallaði um ástæður þessa, en hnattræn hlýnun jarðar sökum kolefnisútblásturs af mannavöldum er stærsta ógn sem steðjar að mannkyni. Álagningu kolefnisgjalds hefur verið beitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er ein þeirra aðferða sem hafa bein áhrif á fjárhagslega afkomu fyrirtækja og einstaklinga.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta um að kolefnisgjald hækki eða lækki með hliðsjón af því hvernig hefur gengið að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum árið á undan og markmið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040, t.d. með því að miða við línulega minnkun á útlosun á ári. Línuleg minnkun þarf þó ekki endilega að vera markmiðið, það gæti verið hlutfallsleg minnkun eða einhver föst tala eða hvaða leið sem ríkisstjórnin ákveður að fara svo lengi sem markmiðið er það sama, að ná kolefnishlutleysi.

Til að tryggja enn betur árangur af þessari aðgerð er lagt til að gjaldið hækki að veldisvexti ef það gengur illa að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum og ná markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland. Gjaldið hækki þeim mun meira ef illa gengur að ná markmiðum. Það er til að hvetja til þess að það gangi betur á næsta ári, svo gjaldið hækki ekki enn meira. Á móti er gulrótin sú að gjaldið lækki ef góður árangur næst við minnkun útblásturs.

Hugmyndin og þróun þessa þingmáls átti sér stað á LÝSU – rokkhátíð samtalsins, sem haldin var á Akureyri haustið 2018, þar sem almenningi gafst tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að aðgerðum í loftslagsmálum. Lykilatriði sem tengist í þessari þingsályktunartillögu er að það verði líka að setja fram ákveðna árangurssviðsmynd fyrir fram. Stjórnvöld gefa það út og segja: Við ætlum að vera komin á þennan stað eftir eitt ár, tvö ár, fimm ár, tíu ár. Þá er komin skýr sviðsmynd sem sýnir hvaða árangri stjórnvöld ætla að ná á hverju ári eða tveggja ára fresti eða hvernig sem það yrði. Aðrar hugmyndir sem eru í vinnslu t.d. hjá mér eru að það væri sniðugt að setja svipuð ákvæði og þetta um loftslagsmál í fríverslunar- og milliríkjasamninga þar sem áhersla væri einmitt á að kolefnisgjaldið færi hækkandi því það verður dálítill munur ef við hækkum kolefnisgjaldið mjög mikið en aftur á móti nágrannaþjóðir eða viðskiptaþjóðir ekki. Það myndi búa til ákveðið ójafnvægi í flæði vöru sem er með lægra kolefnisgjald erlendis og kæmi hingað til lands á mun hagkvæmari hátt án þess að það væri tekið tillit til kolefnisfótspors þeirrar vöru. Það væri nauðsynlegt að huga að því í milliríkjasamningum eða fríverslunarsamningum að kolefnisgjaldinu sé haldið á lofti. Jafnvel gæti það tengst því að ákveðnir kolefnistollar kæmu á vörur frá löndum sem eru ekki með neina kolefnistolla. Við getum miðað við t.d. þingsályktunartillöguna sem var rædd hér áðan, um kolefnismerkingu á kjötvörur. Þá liggur augljóslega fyrir hvert kolefnisfótsporið er og hvert kolefnisgjaldið er miðað við upprunaland. Ef það er mikill munur á því og hérna á Íslandi er það ákveðinn aðstöðumunur sem væri eðlilegt að jafna. Markmiðið er að við þurfum að losa okkur við þetta og verða kolefnishlutlaus.

Píratar leggja áherslu á loftslagsmál því ef ekki verður brugðist við á þeim vettvangi þá skiptir mjög litlu máli hvað annað við gerum. Þess vegna settum við Píratar upp hugmyndabanka á LÝSU þar sem við söfnuðum saman hugmyndum frá gestum og gangandi á hátíðinni og leyfðum síðan fólki að kjósa um hvaða hugmyndir væru mikilvægastar og sniðugastar. Markmiðið var að leggja fram þingsályktunartillögu með helstu hugmyndum fundarins en svo kom fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem flestar þær hugmyndir sem komu fram á fundinum voru vel útfærðar, vel segi ég í svona smá gæsalöppum.

Ein hugmynd stóð hins vegar upp úr og það var sú sem sett er fram í þessari tillögu. Þetta er líka sú hugmynd sem fékk flest atkvæði. Ég ætla rétt að lýsa því nánar hvernig þessi hugmynd virkar. Við Íslendingar þekkjum nefnilega verðtryggingu mjög vel. Ef verðlag hækkar þá hækka lánin sjálfkrafa. Þessi hugmynd snýst um að verðtryggja umhverfið. Ef við náum ekki þeim árangri sem við þurfum að ná miðað við þá alþjóðasamninga sem við erum skuldbundin til að halda, þá hækkar kolefnisgjaldið sem er eina stjórntæki stjórnvalda sem endurspeglar raunverulegan kostnað loftslagsbreytinga. Gulrótin hérna, eins og ég sagði áður, er að ef við náum settum árangri og ef við stöndum okkur vel og betur þá lækkar kolefnisgjaldið á móti.

Smádæmi: Ef kolefnisgjaldið er 100 kr. í upphafi og ætlunin er að draga úr losun um 10% á því ári og það tekst, þá helst kolefnisgjaldið óbreytt. Ef það myndi nást hins vegar 15% minnkun á losun gæti kolefnisgjaldið kannski minnkað um 5%. Ef markmiðið næst ekki og þá væri bara 5% samdráttur þá myndi kolefnisgjaldið ekki bara hækka um 5% heldur um eitthvert margfeldi af muninum þar á. Það er til þess að bregðast hraðar við því að kolefnisgjaldið er í rauninni rangt og auka hvatann til að minnka útblástur. Hækkunin væri lítil ef munurinn væri lítill en færi stigvaxandi eftir því sem munurinn verður meiri. Óbreytt losun þegar vænt lækkun væri 10% myndi að sjálfsögðu hækka kolefnisgjaldið um kannski 50%. Nákvæm útfærsla er lögð í hendur ráðherra og þinglegt ferli þegar frumvarpið kemur til þingsins.

Markmiðið með kolefnisgjaldinu er og hefur alltaf verið að orsakavaldar loftslagsbreytingar vegna útblásturs greiði fyrir kostnaðinn sem hlýst af mótvægisaðgerðum. Þetta er gjald sem er ætlað að úrelda sjálft sig þegar hætt verður að nota aðferðir sem valda því að kolefnisgjaldið er innheimt. Það er sett í hendur neytenda og fyrirtækja að velja og hafna en hingað til hefur kolefnisgjaldið einfaldlega verið það lágt að það hefur ekki haft teljanleg áhrif. Auðvitað getur hækkun á kolefnisgjaldi komið niður á neytendum til skamms tíma. Til skamms tíma, það er mjög mikilvægt. Þetta er óhjákvæmilegt að einhverju leyti en ef kolefnisgjaldið er ekki nógu hátt til þess að ný tækni geti rutt sér til rúms þá endum við í þeim hörmungum sem núverandi spálíkön segja til um. Þær afleiðingar eru miklu verri en tímabundin skammtímahækkun. Ef valið á að vera á milli tímabundinnar skammtímahækkunar á kolefnisgjaldi eða langtímahækkunar og hörmunga er það ekki einu sinni val. Það væri einfaldlega heimska að velja hörmungar.

Staðan í dag er sú að við eigum að minnka útblástur um 40%. Það er miðað við Kyoto-bókunina og tekur Parísarsamkomulagið við í kjölfarið. Miðað við stöðuna frá 1990 á að minnka útblástur um 40%, en við höfum hins vegar aukið útblástur þannig að við þurfum að minnka hann miðað við núverandi stöðu um u.þ.b. 50% til þess að ná markmiðum Kyoto. Það er hins vegar búið að gera alls konar samninga með ýmiss konar flóknum útreikningum sem þýðir að við skilum sameiginlegu losunarbókhaldi varðandi Kyoto-bókunina með einhverjum Evrópuþjóðum. Það þýðir að við þurfum bara að minnka útblástur um tæp 30%, miðað við 10–15 ára gamlar tölur eða svo. Ástæðan fyrir því er að sumar þjóðir sem við skilum losunarbókhaldi með hafa minnkað losun sína um ákveðið hlutfall miðað við þessa nýju viðmiðunartölu frá því í kringum 2005 eða svo. Þær þjóðir, sem eru ríkari þjóðirnar í Evrópu, koma til með að minnka losun um 40% miðað við þær tölur og þær eru þegar lægri en tölurnar síðan 1990. Við fáum að vera með þeim og þurfum þar af leiðandi bara að minnka útblástur um 30% og erum rosalega heppin. En við höfum ekki skilað þeim árangri sem við settum okkur að ná sem þjóð. Við fáum að skila verri árangri af því að aðrir gera betur. Ég er ekki alveg sáttur við það en svona er það.

Markmiðið eins og það er sett fram núna og núverandi stjórnvöld setja fram er hins vegar kolefnishlutleysi þannig að óháð því hvort minnkun á kolefnisútblæstri sé bara 30% fyrir 2030, þá eigum við, tíu árum síðar, að vera orðin kolefnishlutlaus. Það er risastórt markmið og verður áhugavert að sjá í endurskoðun á aðgerðaáætlun um loftslagsmál hvernig það ferli kemur til með að líta út. Þetta ætti að skila síðan tölulegri áætlun um það hvernig það ferli lítur út, t.d. þannig að það er mjög mikilvægt að fara út í þessar aðgerðir.

Staða heimsins í dag, þótt við séum heppin, er ekki heppileg. Parísarsamkomulagið hefur verið kallað samkomulag um langtímahörmungar. Endurmat á stöðunni er svartsýnna en matið sem lá fyrir þegar Parísarsamkomulagið var gert. Við kunnum ekki að snúa við þróuninni. Við kunnum ekki að vera kolefnisneikvæð. Það gerir að verkum að staðan verður alltaf verri og verri og verri — þangað til að við kunnum að vera kolefnishlutlaus. Sama hvað við gerum, þangað til við lærum að vera kolefnisneikvæð, verður staðan alltaf verri og verri og við gerum óafturkræfar breytingar á jörðinni, breytingar sem leiða af sér útrýmingu dýrategunda og jurtategunda. Breytingar sem gera jörðina kannski ekki ólífvænlega fyrir mannveruna, a.m.k. ekki strax, munu hafa gríðarleg áhrif á búsetu fólks um alla jörðina.

Þessi þingsályktunartillaga leysir kannski ekki öll vandamál heimsins en með því að hvetja þá sem losa til að losa minna hraðar komumst við a.m.k. hraðar nær markmiðinu um kolefnishlutleysi sem er fyrsta markmiðið því að þá erum við a.m.k. að hætta að auka á vandann.