150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og byrja á því að segja það sem aðrir hafa komið inn á, að tíminn fram undan verður erfiður fyrir okkur sem samfélag. Það verða áföll í ferðaþjónustu og það þarf að hafa augun sérstaklega á samhengi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Ferðaþjónustan skapar allt að 40% útflutningstekna okkar sem samfélags og rúm 8% af vergri landsframleiðslu. Ólíkt því sem áður var eru fá lönd í heiminum eins háð ferðaþjónustu og Ísland. Það er ekki hægt að tala um efnahagsmálin annars vegar og áhrif á ferðaþjónustuna hins vegar. Ferðaþjónustan fer um alla kima samfélagsins og höggið á hana mun hafa afleiðingar alls staðar annars staðar.

Við megum auðvitað aldrei missa sjónar á því að mikilvægasta verkefnið okkar er að hægja á útbreiðslu veirunnar til að hún fari ekki fram úr þolmörkum heilbrigðiskerfisins. Það er grunnverkefnið. Við treystum þeim sérfræðingum í almannavörnum og heilbrigðismálum sem stýrt hafa þeim viðbrögðum og ég verð að hrósa þeim og þeirri upplýsingagjöf sem verið hefur undanfarna daga, og það gagnsæi sem henni fylgir, sem skiptir máli í veröld þar sem falsfréttir fljúga mjög auðveldlega. Viðbrögðin hafa verið skynsamleg og fumlaus og íslenska þjóðin hefur lagst á árarnar með okkur og sýnt mikla ábyrgð gagnvart því sameiginlega verkefni okkar að tefja útbreiðslu veirunnar.

Strax fyrsta virka dag eftir að fyrsta veirusmitið greindist hér á landi, mánudaginn 2. mars, kölluðum við saman Stjórnstöð ferðamála til að ræða áhrifin á íslenska ferðaþjónustu og hvernig við gætum lágmarkað þau. Á þeim fundi voru nefndar ýmsar hugmyndir, t.d. afnám gistináttaskatts og kröftugt markaðsátak erlendis til að sækja aftur ferðamenn þegar ferðaviljinn í heiminum glæðist á ný. Viku síðar er búið að ákveða að ráðast í þessar aðgerðir og margar fleiri. Fyrirtæki fá kost á gjaldfresti á opinberum gjöldum til að létta þeim róðurinn meðan þessi alda gengur yfir. Gistináttaskatturinn verður felldur niður tímabundið sem auðvitað ræður ekki úrslitum eitt og sér, en skiptir þó verulegu máli og ekki skal gert lítið úr því að það hefur verið eitt helsta baráttu- og hagsmunamál fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Við ætlum í stórt markaðsátak þegar þetta tímabundna ástand verður liðið hjá til að taka þátt í þeirri hörðu samkeppni um athygli ferðamanna sem þá mun bresta á og við verðum tilbúin til að verja til þess meiri fjármunum en áður hafa sést í þessum tilgangi, enda er hér um tugmilljarða gjaldeyristekjur að tefla. Þessi áform hafa verið kynnt og undirbúningur er í fullum gangi. Það er ekki rétt að ekkert bóli á þeim hugmyndum, þær eru þegar í farvegi. Við gerum ráð fyrir 1,5 milljörðum í átakið og atvinnugreinin sjálf mun í kjölfarið ráðast í söluátak fyrir um 3 milljarða kr. Væntingar okkar eru að með þessu megi milda höggið af töpuðum gjaldeyristekjum sem getur numið allt frá 30–50 milljörðum samanborið við að gera ekki neitt. Það er skynsamlegt vegna þess að örvun á eftirspurnarhlið ferðaþjónustu er líklega ein skilvirkasta leiðin til að lágmarka tjónið fyrir íslenskt efnahagslíf.

Herra forseti. Umhverfið breytist klukkustund frá klukkustund. Óvænt ferðabann Bandaríkjaforseta gagnvart flestum Evrópulöndum setur að sjálfsögðu mjög stórt strik í reikninginn. Það er þetta með alvöruleiðtoga; sumir vilja hampa alvöruleiðtogum fyrir alvöruviðbrögð en það er þvert á móti ábyrgðarhluti alvöruleiðtoga að haga viðbrögðum að ígrunduðu máli með heildarsamhengi að leiðarljósi. Þótt ferðabannið gildi ekki um Bandaríkjamenn sjálfa er líklegt að það dragi úr ferðum þeirra til Evrópu, bæði vegna þeirrar ásýndar sem bannið gefur Evrópu og vegna þess að þeir munu þurfa að sæta einhvers konar skimun við heimkomuna og verða að koma heim í gegnum tiltekna flugvelli. Bandaríkjamenn hafa undanfarin ár verið fjölmennastir í hópi ferðamanna til landsins. Í fyrra voru þeir tæp hálf milljón eða næstum fjórðungur ferðamanna. Ef við skoðum þá tilteknu mánuði sem um ræðir komu 38.000 Bandaríkjamenn til Íslands í mars í fyrra og 26.000 í apríl. Og þó að 30.000 manns séu ekki nema 1,5% af árlegum fjölda ferðamanna til landsins eru þetta mjög miklir hagsmunir og við það bætast að sjálfsögðu áhrif ferðabannsins á flug Icelandair yfir Atlantshafið. Meðalútgjöld bandarískra ferðamanna voru í fyrra 16% hærri en meðalútgjöld allra þannig að hér er ekki bara um stóran markað að ræða heldur líka verðmætan markað sem birtist í því að þó að Bandaríkjamenn hafi verið um 23% ferðamanna í fyrra voru þeir ábyrgir fyrir um 30% af útgjöldum ferðamanna. Við sjáum viðbrögðin úr greininni. Formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu telur að hátt í þriðjungur allra bókana hverfi á meðan ferðabannið varir. Hann bendir á að mars og apríl séu rólegasti tíminn í íslenskri ferðaþjónustu og þess vegna hefði tímasetningin í sjálfu sér ekki getað verið betri en hann bætir við, með leyfi forseta: Þeir sem hafa þraukað veturinn í von um betri tíð í sumar, þeir sjá ekki fram á betri tíð. Við höfum heyrt dæmi um allt að 50% samdrátt hjá einstaka fyrirtækjum fyrir sumarið og áhrifin verða gríðarlega mikil. Við vinnum að fleiri aðgerðum til að létta undir með greininni og öðrum, eins og því úrræði að setja fólk í lægra starfshlutfall og að atvinnuleysistryggingar brúi það sem vantar upp á full laun til að draga úr fjöldauppsögnum. Við þekkjum það úrræði úr bankahruninu og hljótum að sjálfsögðu að skoða það alvarlega.

Við erum í aðstæðum sem kalla á afgerandi viðbrögð. Ég vil ítreka að mikilvægasta verkefnið er eftir sem áður að tefja útbreiðslu kórónuveirunnar, gera það sem þarf til að standa vörð um þau okkar sem ráða síður við að fá veiruna. Þótt það sé auðvitað fyrst og fremst til að verja líf okkar og heilsu er það líka mikilvægt efnahagslega að við komumst sem farsælast í gegnum þessa erfiðleika. Í góðum og fumlausum viðbrögðum okkar við þessari áskorun felast líka tækifæri til að verða aftur eftirsóknarverður áfangastaður ferðamanna. Við erum sterkt samfélag og það er margt við okkar samfélag sem gerir okkur vel í stakk búin til að fara í gegnum þetta. Við erum öll á sama báti og það þýðir að við förum í gegnum þetta saman.