150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:05]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður deilum því að verkefni sjóðsins eru mikilvæg og margt gott hefur komið frá sjóðnum og orðið til vegna stuðnings hans. Eins og ég nefndi áðan væri það góð ráðstöfun á fjármagni að efla sjóðinn enn frekar en lykilatriðið er að hann sé vel í stakk búinn til að taka við frekari verkefnum. Undanfarin ár hefur hann fengið til sín verkefni til að framkvæma og fjármagn fylgt með þannig að það er í grunninn stóra atriðið, hvort sem það er uppbygging rafhleðslustöðva eða möguleikar á einhvers konar hlutverki í jarðstrengjavæðingu eða öðrum framkvæmdum og hugmyndum sem nú er rætt um. Við höfum auðvitað komist töluvert langt með að hitaveituvæða og finna heitt vatn. Líklega verða alltaf einhver svæði sem gera það ekki og þess vegna er þetta samspil nauðsynlegt líka, að þegar heitt vatn er ekki að finna þá fjárfestum við í varmadælum sem skipta svæðin einnig máli.

Hlutverk sjóðsins er mikilvægt og framtíð hans held ég að verði sú að verkefni fyrir sjóðinn verði fleiri fremur en færri á næstu misserum. Þau hafa verið fjölbreytt og því sterkari sem sjóðurinn er, hvort sem það er með sjálfstæðu fjármagni innan sjóðsins eða að honum eru falin ákveðin verkefni, mun það hjálpa okkur að komast enn lengra, hvort sem það er í orkuskiptum eða til að efla lífsgæði og lífskjör fólks sem býr í dag á köldum svæðum.