150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er nauðsynlegt að bregðast hratt og skjótt við enda góð ábending sem kemur þarna fram og er undirliggjandi í þessu máli. Í málinu eru sögð vera tiltekin ákvæði sem víkja má frá en heimild ráðherra er ekki takmörkuð til að víkja frá í rauninni öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga þrátt fyrir að í greinargerðinni séu taldar upp þær ástæður sem fyrirsjáanlegt er að valdi vandræðum. Mér finnst vera tiltölulega augljóst að þegar um svona valdheimildir ráðherra og í raun framsal á valdheimildum til ráðherra er að ræða stígum við frekar varlega til jarðar og biðjum ráðherra um að geta vikið frá ákveðnum greinum í ákveðnum kafla í staðinn fyrir öllum sveitarstjórnarlögum eins og þau leggja sig. Þau eru hálfgerð stjórnarskrá sveitarstjórnarstigsins.

Ég á líka í smávandræðum með almennan skilning á þessu. Þegar ráðherra veitir heimild til að víkja frá ákvæðum í lögum og síðan er tekin ákvörðun í kjölfarið, á hvaða lagaheimild er slík ákvörðun tekin? Það er búið að veita undanþágu frá því að fara eftir ákvæðum en ýmsar ákvarðanir verða að vera byggðar á lögum. Þetta er pínu merkilegt mál hvað þetta varðar. Eins og hv. þingmaður segir í framsöguræðu sinni getur þetta oltið á aðstæðum í hverju tilfelli. En í greinargerð með þessu máli eru talin upp tilfelli sem er fyrirsjáanlegt að skapi vandræði. Þess vegna skil ég ekki af hverju verið er að veita ráðherra heimild til að víkja í raun frá öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga eins og þau leggja sig í staðinn fyrir þessum ákveðnu tilvikum sem eru talin upp; fjarfundina, ársreikninga og þess háttar.