150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur andsvarið. Ég vil ítreka að þarna er verið að veita afmarkaða heimild til þess að víkja frá tilteknum ákvæðum sem sveitarstjórn getur ákveðið að nýta. Ég átta mig vissulega á því að í einhverjum tilfellum gæti komið upp sú staða að sveitarstjórnarfundur væri ekki fullmannaður, nefnd sæti ekki við sama borðið eða einhverjum gögnum væri skilað eftir skilafrest, og þá gæti komið upp kæra vegna þess að slík ákvörðun væri ólögmæt. Heimildin sem hér er verið að veita gæti skýrt slík tilvik.

Ég ætti auðveldara með að svara spurningum hv. þingmanns ef hér væri dregið fram eitthvert dæmi um það sem þingmaðurinn er að velta fyrir sér. Ég tel mig þekkja störf í sveitarstjórnum býsna vel og sveitarstjórnarlögin, en ég átta mig ekki á því um hvers konar tilvik væri að ræða. Það er auðvitað gert ráð fyrir því að sú ákvörðun sem tekin væri í sveitarstjórninni um frávik væri tekin fyrir fram, þ.e. áður en farið er að taka ákvörðun miðað við frávikið. Svo vil ég benda á það ákvæði sem er nú þegar til staðar í sveitarstjórnarlögum, um heimild til ráðherra að skipa sérstaka starfsstjórn komi upp neyðarástand.