151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

sóttvarnir.

[13:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á nokkrum dögum hafa 50–60 tilfelli veiru verið greind á landamærunum, aðallega breska veiran. Það er áhyggjuefni vegna þess að það virðist vera að hún sé bara að detta inn og sé komin inn í samfélagið. Spurningin er: Á að stoppa þar? Á að hleypa henni inn? Mér virðist hæstv. heilbrigðisráðherra ekki ætla að grípa til lokana þannig að við komum í veg fyrir það. En það er annað sem er alvarlegra; nú er verið að banka illilega á austurlandamæri landsins, brasilíska veiran er að banka þar á. Og það sem er enn þá alvarlega, ef rétt er, er að maður var sendur um borð án þess að vita af því að smit væri um borð, að tíu af 19 manna áhöfn væru smitaðir. Þessi maður var í tvo eða tvo og hálfan tíma um borð áður en hann fékk að vita það. Brasilíska veiran getur smitað börn, en það sem er enn þá alvarlegra við þessa brasilísku veiru er að hún er talin geta smitað þá sem áður hafa fengið Covid. Ef það er rétt erum við komin í hálfgerða rússneska rúllettu með veiruna. Við verðum að tryggja að þessi veira komist ekki inn.

Ég ætla að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er ekki kominn tími til að við lokum landamærum næstu þrjá til fjóra mánuði á meðan við erum að klára bólusetningar? Ætlum við virkilega að láta alla detta ofan í veirubrunninn? Mér sýnist hæstv. heilbrigðisráðherra vera með einhverja plástra sem eru með engu lími. Það á bara einhvern veginn að taka séns. Við höfum tækin í dag til að stoppa þetta. Gerum það!