151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar því að mér finnst sjálfum þetta mjög merkilegt. Það er eiginlega alveg sama hvar við horfum á nýja atvinnustarfsemi á Íslandi, stór apparöt eins og lífeyrissjóðirnir, sem eru með þúsundir milljarða undir, hafa verið til í að fjárfesta í rannsóknarskipum sem áttu að vera einhvers staðar við olíuleit hér langt norður í hafi. En þeir voru ekki til í á sínum tíma, í kjölfar hruns, að fjárfesta í því sem nú heitir HS Orka, af því að þá voru þeir að fjárfesta í Icelandair, ef ég man rétt, án þess að ég geri á nokkurn hátt lítið úr því góða fyrirtæki. En það virðist vera einhvern veginn þannig að ef tækni er innifalin, ekki seðlabúnt sem blasir við, séu menn tortryggnir og hræddir við að festa fé sitt í sprotum, því miður.