151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Já, hið fræðilega á að vera hagnýtt og hið hagnýta á að vera fræðilegt og til þess að svo megi verða þurfum við svona millistykki sem er einmitt nýsköpunarmiðstöð af því tagi sem hér er verið að leggja niður, eða þannig kýs ég að skilja þetta. Mér finnst þetta svolítið vera eins og þessi tölvufyrirtæki sem eru alltaf að búa til ný og ný millistykki til að rugla okkur í ríminu og láta okkur kaupa meira. Stjórnvöld eru að gera það núna, þau eru að koma með eitthvert nýtt millistykki sem enginn veit hvernig verður og enginn veit hvar verður og enginn veit hvað á að tengja og hvernig tengingarnar verða. Hér er lagt upp í mikla óvissuferð og mér finnst þetta jaðra við að vera hálfgerð hamfarastefna.

Fram hefur komið að nefndinni hafi borist 34 innsend erindi í þessu máli og 86 gestir hafi komið fyrir nefndina. Hv. þingmaður hefur bæði lesið mikið um þetta og hefur hlýtt á marga sérfróða gesti segja frá sínum skoðunum, sem mér skilst að hafi upp til hópa verið varnaðarorð. Mig langar til að heyra aðeins ofan í hv. þingmann um það hvernig hann sér þetta fyrir sér, hið æskilega fyrirkomulag, hvernig hann myndi sjá fyrir sér að þessum málum yrði best fyrir komið, hvort við höldum áfram algerlega á sömu braut, (Forseti hringir.) hvort við höldum áfram á sömu braut en með vissum umbótum, byggjum á því sem fyrir er (Forseti hringir.) en reynum þó að bæta það aðeins.