151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki margt sem bendir til þess, varðandi þennan tiltekna lista sem hv. þingmaður gerir hér að umræðuefni upp úr umsögn Kristjáns Leóssonar, að þetta frumvarp sé sérstaklega fallið til að styrkja stöðu Íslands á þeim lista. Það verður að segjast eins og er. Mig langar til að nota þetta tækifæri og bæta því við að eitt af því sem vantar í þetta er erlendur samanburður. Hvaða skipan hafa okkar nágrannaþjóðir og aðrar þjóðir sem hafa náð langt á þessum vettvangi skapað í kringum opinberan stuðning á þessu sviði? Ég ætla að segja frá því hér að ég kallaði ítrekað eftir þessu á fundum hv. atvinnunefndar. Þetta er svo sem út af fyrir sig lítillega orðað í umsögn meiri hlutans en ég hefði talið mjög æskilegt að fjallað væri um það hvaða fyrirmyndir við legðum helst til grundvallar meðal okkar nágrannaþjóða, hvað þau hefðu metnað til að gera enn betur en við gerum og þá kannski með hliðsjón af því sem öðrum hefur tekist, því væri lýst í þessu móverki öllu saman að hverju raunverulega væri stefnt með þessari viðleitni allri. En þetta er því miður ekki neins staðar að finna. Það sem Kristján Leósson, fyrst vísað er til hans hérna, dregur alveg frábærlega fram og með hnitmiðuðum hætti, og við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson tókum upp í okkar minnihlutaálit, er hvað undirbúningi málsins var áfátt.