151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning og það sem ég hefði viljað bæta við varðandi það sem stendur í fjármálaáætlun, eða stendur réttara sagt ekki í fjármálaáætlun af því að þetta er ekki uppfærð stefna málefnasviða frá því skjali sem var samþykkt á Alþingi fyrir jól. Það er til dæmis engin viðbót eða útfærðari stefna á því sviði þar sem við finnum stafrænar smiðjur, þar sem ekki var lagt til neitt aukafjármagn til þeirrar útvíkkunar á stafrænum smiðjum sem Alþingi samþykkti í þingsályktun um uppbyggingu og aðgengi að stafrænum smiðjum. Ég held því í fyrsta lagi að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þeim stafrænu smiðjum sem eru þegar til staðar. Ég held að rekstrargrundvöllur þeirra hljóti að vera tryggður. Það er ekki augljóst að svo sé en bæði menntamálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafa gefið til kynna að þær séu ekki að fara að hverfa eins og er. En það vantar stefnumörkun um að framfylgja þeirri þingsályktunartillögu sem var samþykkt á þingi um að auka aðgengi, ekki bara framhaldsskólanema, eins og upprunalega tillagan snerist um, heldur einnig það sem Alþingi bætti við og allir samþykktu, að auka aðgengi grunnskólanema um allt land að slíkum smiðjum eða slíkum tækjum. Þannig að nei, ég hef ekki áhyggjur af starfsemi stafrænna smiðja eins og er. Það er ekki auðvelt, það mætti vera betra en það verður alla vega ekki verra, þá er tiltölulega lítið sagt í rauninni hvað það varðar. En já, þá vantar hins vegar stefnumótun til framtíðar. Hún er engin.