151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vakti athygli á því í fyrri ræðu minni að þetta félagaform er mjög skrýtið. Það er sagt vera einkahlutafélag en ríkið á það allt með húð og hári. Fjármálaráðherra heldur á öllum hlutabréfum. Félagið er undanþegið einhverri einni grein laga um einkahlutafélög og þarf að fylgja upplýsingalögum. Ég átta mig ekki alveg á hver, þegar allt kemur til alls, munurinn er á þessu einkahlutafélagi og opinberri stofnun. Það er væntanlega eitthvað í kringum starfsmannamál, sem er út af fyrir sig mjög áhugavert. En ég held að það valdi kannski smáruglingi. Hér kemur einkahlutafélag, eins og hv. þingmaður spurði um, til Evrópusambandsins og það sér fyrst eitthvert einkahlutafélag sem það veit ekkert um. En svo er bent á að það sé í 100% eigu ríkisins og sé í raun og veru opinbert fyrirtæki en samt skráð öðruvísi af því það er pólitík sumra að passa upp á að það sé einkadót en ekki opinbert hlutafélag af því að sumir eru komnir með grænar bólur út af ohf. af því það sé svo vandræðalegt fyrirtækjaform eða eitthvað svoleiðis, bara af því að þeir kunna ekki að fara með það eða eitthvað, ég veit það ekki. Við erum á mjög skringilegum stað með fyrirtækjaformið á þessu þar sem það verður að leggja niður stofnun, það er pólitísk hugmyndafræði, en þá verður samt að búa til eitthvað í staðinn af því að það þarf að sinna þjónustunni. Hún er nauðsynleg. Það hefur sýnt sig að hún margborgar sig en það þarf að gera á einhvern hátt þannig að hægt sé að monta sig af því að hafa minnkað báknið en á sama tíma sinnt þjónustunni. Já, ég held að það verði pínu vandræðalegt að sækja um styrki til að byrja með. En ég held að það reddist þegar hinir fatta að þetta er opinbert fyrirtæki þegar allt kemur til alls.