151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030. Það er ýmislegt hægt að segja um þessa stefnu en ég held að kjarninn hafi kannski komið fram hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur hér áðan, sem hefur töluverða reynslu af þessum málaflokki, þar sem hún minnti á að það væri fátt nýtt í þeim orðum sem birtust á þeim blöðum sem við höfum hér fyrir framan okkur. Þetta er að miklu leyti almenn stefna, almennt orðuð og kunnugleg stef og allt yfir í að vera þrástef sem hafa verið endurtekin árum saman.

Ég sakna kannski stóra markmiðsins með menntakerfinu úr þessari stefnu. Menntakerfið er nefnilega eitt öflugasta hreyfiaflið sem við eigum í samfélaginu. Það er í gegnum menntakerfið sem við búum framtíðina til. Menntakerfið notum við til að svara spurningunni: Hvernig einstakling viljum við eiga eftir 30 ár? Það er menntakerfið sem stýrir því hvernig samfélag við erum að byggja upp saman, hvernig einstaklingur er líklegur til að taka virkan þátt í nútímasamfélagi og búa sér og okkur öllum góða framtíð. Þetta eru spurningar sem vonandi er svarað, þó að þeirra sé ekki spurt, í tillögunni. Hluti af því sem svarið samanstendur af eru grunnþættir menntastefnunnar. Þetta eru grunnþættirnir sem birtast í aðalnámskrá. Þetta eru þættir sem vefa sig í gegnum lög um hin ólíku skólastig og hafa verið rauður þráður í menntakerfinu síðustu ár og jafnvel áratugi.

Mig langar að nefna nokkra þessara grunnþátta. Fyrst langar mig að nefna jafnréttisþáttinn sem hefur verið einn af grunnþáttum, samkvæmt aðalnámskrá frá 2011, sem ég held að við séum hætt að tala um sem nýju aðalnámskrána, þó að það sé mögulega bara nýhætt, en hefur verið í lögum enn lengur. Í jafnréttislögum frá 2008 stendur, með leyfi forseta:

„Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.“

Þessi texti birtist síðan í endurskoðuðum jafnréttislögum sem við samþykktum hér fyrr í vetur.

Í ljósi þess að þetta hefur verið lagabókstafur og grunnþáttur aðalnámskrár um áratugaskeið, eftir því hvort horft er á, þá er næstum því hjákátlegt að lesa í nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Nefndin telur einnig mikilvægt að taka upp og efla sérstaka áfanga um jafnrétti, eins og kynjafræði, sem gætu gert mikið til að vekja komandi kynslóðir enn frekar til umhugsunar um stöðu sína og viðhorf þegar kemur að kynjasmisrétti í námi og á vinnumarkaði.“

Þetta er nánast samhljóða lagaákvæðinu úr jafnréttislögunum frá 2008. En af hverju hefur þessu ekki verið hrint í framkvæmd með þeim hætti að við þurfum ekki að tiltaka þetta í hvert sinn sem við samþykkjum hér á þingi einhverja stefnumörkun varðandi menntakerfið? Það dugar greinilega ekki að setja bara stafi á blað og ætlast til þess að kerfið taki við þeim og hrindi í framkvæmd vegna þess að menntakerfið virkar ekki sjálfkrafa sem hreyfiafl. Það þarf nefnilega að styðja það til þess. Jafnrétti hefur ekki fengið þann sess innan menntakerfisins sem því ber samkvæmt lögum og aðalnámskrá vegna þess að það hefur skort pening. Það hefur skort áherslu í kennaranámi. Það hefur skort tækifæri fyrir kennara til að sækja sér endurmenntun til að geta orðið betri kennarar í jafnréttismálum. Á þetta hefur verið bent æ ofan í æ af kennurum, af nemendum, af alls konar fólki úr skólasamfélaginu sem sér að þessi grunnþáttur er ekki uppfylltur. Þess vegna skiptir þessi menntastefna eiginlega minna máli en aðgerðaáætlanirnar sem henni munu fylgja og hvaða fjármagn verði látið inn í þær til að hrinda þeim í framkvæmd. Það er þar sem hið eiginlega inntak stefnunnar mun birtast. Í ljósi þess að skólasamfélagið samanstendur af ótal ólíkum hópum er mjög mikilvægt að samráðið um framkvæmdirnar, samráðið um aðgerðaáætlunina eða um innleiðingaráætlunina eins og það heitir í tillögunni, verði víðtækt og opið.

Mig langar að nefna annan grunnþátt menntunar og hvernig hann birtist okkur. Það er grunnþátturinn lýðræði og mannréttindi. Þetta er þáttur sem nær miklu víðar en bara inn í skólastofurnar vegna þess að það að kenna fólki lýðræði gerist ekki bara í kennslustund heldur í samfélaginu sem er skapað í skólanum. Það gerist í því að nemendur fái að hafa eitthvað að segja um það hvernig skólinn er rekinn, hvernig skipulagið er, að talað sé við nemendur um það hvernig þetta skólasamfélag þróast. Við höfum ótal sinnum, líkt og með jafnrétti, fengið ábendingar, sérstaklega frá ungu fólki, ýmist nemendum eða fólki sem hefur nýlega lokið námi, um að þessum grunnþætti sé verulega áfátt í skólakerfinu okkar. Þetta kemur sérstaklega vel í ljós þegar við fjöllum um lækkun kosningaaldurs þar sem umsagnaraðilar benda á að allur gangur sé á því hvort skólar skili nemendum frá sér með þau verkfæri sem þeim þætti best að hafa til að geta orðið sterkir þátttakendur í lýðræðissamfélaginu. Það birtist líka í því að það þarf sjálfsprottinn grasrótarhóp eins og Menntakerfið okkar til að koma ábendingum til þingsins frekar en að ráðuneytið kalli sérstaklega eftir þeim frá notendum þjónustunnar við þessa tillögu. Fólkið í Menntakerfinu okkar var heldur ekki að segja nein ný sannindi heldur að ítreka við þingheim þau atriði sem allt of oft þarf að ítreka.

En varðandi lýðræðislega samráðið sem þróun skólakerfisins þarf að byggja á þá er líka ágætt að nefna uppákomu frá síðasta sumri, sem er í beinum tengslum við þessa menntastefnu, þegar drög að nýrri viðmiðunarstundaskrá grunnskólanna birtust á samráðsgátt stjórnvalda og sagt var að sú viðmiðunarstundaskrá væri hluti af þeirri stefnumörkun sem er í menntastefnunni. Á samráðsgáttinni stóð, með leyfi forseta:

„Tilefni breytinga er viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði sem ítrekað hefur birst í niðurstöðum PISA.“

„Viðvarandi slakur árangur nemenda“ — mér finnst þessi tónn hræðilegur, virðulegur forseti, og ég vona að stjórnvöld tali aldrei svona til barna aftur. En hver er lausn menntamálaráðuneytisins á þessum meinta slaka árangri nemenda? Jú, að setja í loftið hugmynd um að taka allt val úr viðmiðunarstundaskrá í 1. til 7. bekk og skera það mjög mikið niður hjá 8. og 10. bekk og breyta öllum þessum kennslustundum í íslensku og náttúrugreinar. Án samráðs birtist þetta. Ekki var búið að ræða við unga fólkið sem þetta snertir. Það hefði t.d. verið hægt að hlusta á unga fólkið sem sótti barnaþingið tæpu ári áður. Ein af niðurstöðunum í skýrslu barnaþingsins, sem allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar fengu afhenta við hátíðlega athöfn í ráðherrabústaðinn, var einróma ákall um aukið val í grunnskólum, ekki að þurrka það allt upp eins og ráðherrann lagði til að gera til að hegna nemendum fyrir slakan árangur. Þar að auki þá lýsir þessi hugmynd svo skrýtinni nálgun á menntun, að það sé magnið sem skipti máli en ekki gæðin. Enda kom það á daginn, í flestum umsögnum sem kennarar skiluðu inn á samráðsgáttina, að fólk benti á að slæmur árangur í íslensku eða náttúrugreinum myndi ekkert batna við það að fjölga kennslustundum en myndi hins vegar batna með nýju námsefni og með því að kennarar gætu sótt sér endurmenntun, gætu farið á námskeið, gætu gert hluti til að verða betri kennarar, sem þau vilja vera. Þar erum við aftur komin að því að menntakerfið verður ekki hreyfiafl af sjálfu sér. Það þarf eitthvað til að knýja mótorinn. Þegar kemur að kennurum er það einfaldlega bara að borga þeim laun og sjá til að þau hafi tíma til að sinna öðru en því einu að standa í skólastofunni.

Mig langar líka að nefna hér ólíkar þarfir ólíkra hópa, sérstaklega vegna þess að það hefur dálítið mikið verið talað um stöðu drengja í skólakerfinu í tengslum við þessa ályktun og í tengslum við menntakerfið almennt; þetta er eitt af þrástefjunum og ég hef áhyggjur af því að þessi ofuráhersla í umræðunni á stöðu drengja, vegna þess að þeir komi verr út í lestrarprófi en stúlkur, láti fólk gleyma því að aðrir hópar glíma við ýmis önnur vandamál í skólakerfinu. Stúlkum líður verr en drengjum að meðaltali. Transbörnum líður enn verr, þeim líður verst í skólakerfinu. Það er oft og tíðum ekki hugað nógu vel að þörfum fatlaðra nemenda. Nemendur með innflytjendabakgrunn flosna fyrr upp úr námi. Þetta eru allt hópar sem við þurfum að ná utan um og við megum ekki lenda í því að setja of mikinn fókus á einn þeirra sem gæti dregið úr stuðningi við annan.

Í því samhengi langar mig að minna hér á skýrslu starfshóps Reykjavíkurborgar um námsárangur drengja sem Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stýrði og skilaði af sér í september 2011. Ég vel þetta plagg öðrum fremur aðallega af því mér finnst skemmtilegt að það sé jafn gamalt aðalnámskránni til að sýna hversu langt aftur djúp umræða um þetta mál nær. Það eru margar góðar tillögur í skýrslu starfshópsins sem leiða okkur kannski að því að velta því fyrir okkur hvort það þurfi mikið að setja þetta í skoðun, hvort við getum ekki bara farið að hrinda hlutum í framkvæmd. Ein af tillögum hópsins er að styrkja bókaútgáfu vegna þess að læsi verður ekki til nema fólk hafi eitthvað spennandi til að lesa. Ef börn komast á bragðið og verða þeir stórnotendur bókmennta sem vel læs börn eru þá eru skólabókasöfnin mjög fljót að verða eyðimörk fyrir þau. Þau eru bara búin að lesa sig í gegnum allt sem læsilegt er. Því þarf að bregðast við með því að fylla þessi skólabókasöfn af nýjum og spennandi bókum.

En í þessari skýrslu starfshóps um námsárangur drengja er líka áhugaverð tillaga sem mig langar að vekja athygli forseta á. Það er tillaga um líðan stúlkna og námsstuðning, mögulega hin hliðin á peningnum, eitthvað sem er gott að hafa í huga til að við munum að halda fókusnum á öllum hópum. Með leyfi forseta:

„Starfshópurinn leggur til í ljósi sterkra vísbendinga og upplýsinga í gögnum sem hafa verið skoðuð að sérstakur starfshópur um líðan stúlkna sé settur á laggirnar. Tvennt sé sérstaklega rýnt fræðilega, annars vegar kvíði stúlkna í skólum og hins vegar hvort geti verið að stúlkur séu ekki að fá greiningar nægilega snemma í samhengi við sérstaka þjónustu við börn.“

Það er nefnilega víða pottur brotinn í skólakerfinu okkar og við þurfum að sjá til þess að öllum börnunum okkar líði vel og að allar aðgerðir, sem farið er í til að bæta stöðu einhvers hóps innan skólasamfélagsins, byggist á þeirri forsendu að þær hafi jákvæð áhrif á alla nemendur. Það á að vera hægt að lyfta öllum hópnum þó að við séum að lyfta einum meira en öðrum.

Mig langar síðan aðeins að velta fyrir mér hversu langt framtíðin nái yfir höfuð. Hér erum við með menntastefnu sem nær til ársins 2030. Er það sérstaklega langur tími þegar kemur að menntakerfinu? Aðalnámskráin er frá 2011 sem er fjær okkur í tíma í dag en 2030. Börn sem eru í 1. bekk í dag væru þá væntanlega í 10. bekk 2030. Þetta er menntastefna sem nær ekki einu sinni yfir einn umgang af grunnskólanemendum. Ég velti því upp hvort við þurfum að horfa til ögn lengra til framtíðar þegar við setjum stefnu um þetta kerfi.

Þá hefði mér þótt ákjósanlegt, eða alla vega hefði mátt taka það til skoðunar, að nefna sérstaklega þau brýnu verkefni sem heimurinn stendur frammi fyrir í ljósi þess að menntakerfið er ein af lausnunum á vanda framtíðarinnar. Þá er ég kannski sérstaklega að tala um loftslagsmálin en það hefði líka mátt vefa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna almennt betur inn í þessa stefnu. En eins og ég sagði: Stefnan er knöpp og hún er almennt orðuð. Það endurspeglast kannski í því að stefnan sjálf er 2.700 orð en nefndarálitið við hana er 3.400 orð. (Forseti hringir.) Við sjáum hvað innleiðingaráætlanir munu leiða í ljós á næstu mánuðum til að setja kjöt á beinin. Þar ríður á að aðgerðir og fjármagn fylgi.