153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

Óundirbúinn fyrirspurnatími.

[15:09]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Til svara eru: Innviðaráðherra, matvælaráðherra, utanríkisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra.

Forseti vill geta þess að eftir samtöl við formenn þingflokka hefur forseti ákveðið að víkja frá hefðbundinni röð í óundirbúnum fyrirspurnum upp að nokkru marki. Sú venja hefur skapast að formenn flokka koma fyrstir í óundirbúnar fyrirspurnir, þá formenn þingflokka og svo aðrir þingmenn og allt innbyrðis eftir stærðarröð flokka. Forseta hefur verið bent á að sú staða geti skapast að formaður flokks, eða eftir atvikum, formaður þingflokks, kunni að vera fjarverandi um lengra tímabil vegna atvika eins og veikinda, fæðingarorlofs eða annars þess háttar, og það á við um Samfylkinguna sem stendur. Verður því vikið frá þessari röð að því leyti að formaður þingflokks getur þá komið í stað formanns flokks og varaformaður þingflokks í stað formanns þingflokks, eftir því sem svo háttar til.