153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[15:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Enn einu sinni neyðumst við til að ræða rekstrarvanda heilbrigðisþjónustunnar. Til að samtalið fari ekki út um víðan völl eins og getur gerst þegar um svo stóran málaflokk er að ræða þá ætla ég að takmarka fyrri spurninguna við Sjúkrahúsið á Akureyri, þótt stöðuna þar megi auðvitað heimfæra upp á Landspítala – háskólasjúkrahús. Við samþykkt fjárlaga liggur fyrir að það vantar 250 milljónir upp á að sjúkrahúsið lendi ekki í alvarlegum rekstrarvanda árið 2023 miðað við óbreytta þjónustu. Ofan á þetta bætist skortur á hjúkrunarfræðingum sem fara til annarra starfa og fá betri boð um laun, minna álag og betri frí, t.d. hjá Heilsuvernd, heilsugæslunni fyrir norðan og heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ýmsir aðrir þættir sem munu auka álagið á sjúkrahúsið. Öldrunarþjónustan á Kristnesi mun loka aftur í sumar, mygla á öldrunarheimilinu Hlíð, sem fækkar tímabundið rýmum, og loks er gert ráð fyrir fleiri erlendum ferðamönnum en undanfarin ár. Minni geta Sjúkrahússins á Akureyri til að sinna þjónustu mun einungis auka álagið á Landspítala.

Hér ræðum við herra forseta um opinberan málaflokk sem hefur meiri áhrif á líf okkar en flestir aðrir. Hver einasta fjölskylda hefur a.m.k. eina snertingu við heilbrigðiskerfið á ári, flestar miklu fleiri. Staða þjónustunnar hefur því bein áhrif á kjör fólks og þar með inn í kjaraviðræður, auk þess sem gæði hennar leika miklu stærra hlutverk þegar kemur að vali fólks á búsetu en við gerum okkur almennt grein fyrir.

Herra forseti. Ég vil biðja ráðherrann í svari sínu að halda sig við að svara varðandi þetta tiltekna sjúkrahúss þannig að orðaskiptin geti verið hnitmiðuð. Hvernig líst hæstv. ráðherra á þá stöðu sem blasir við? Hyggst hann bregðast við og með hvaða hætti?