153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

viðbrögð stjórnvalda við loftslagsáætlun ESB.

[15:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann vel, að hann komi hingað upp og ætlist til þess að ég svari eins skýrt og hann kallar eftir. Ég sagði skýrt í þessu viðtali og hef sagt það áður að við munum ekki standa að því að innleiða regluverk sem mun stórkostlega skaða hagsmuni Íslands. Mín ábyrgð er umfram allt að tryggja þá hagsmunagæslu sem þarf í þessu máli eins og öðrum og mitt mat er einfaldlega það að á þessum tímapunkti, út af þeim hagsmunum og út af þeirri ábyrgð, þá ætla ég að spila það eins skynsamlega og ég get. Ég tel ekki að hluti af því sé að vera með gífuryrði og risastórar yfirlýsingar á þessum tímapunkti og þess vegna ætla ég ekki að gera það. Þó að það myndi henta mér pólitískt betur að gera það akkúrat núna þá ætla ég ekki að gera það vegna þess að þetta snýst allt um þessa stærri hagsmuni, um samninginn í heild sinni. (Forseti hringir.) Ég hef sagt alveg skýrt að ég mun ekki tala fyrir því að innleiða regluverk sem mun skaða hagsmuni Íslands stórkostlega og þess vegna erum við að vinna að því að það verði einfaldlega ekki þannig.