153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

rafræn ökuskírteini.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þolinmæði mín er á þrotum. Ég sendi inn fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra 24. nóvember sl. Þetta varðar ökuskírteini og ein af spurningunum er: Er hægt að framvísa rafrænu ökuskírteini sem gildu skilríki erlendis og í hvaða löndum þá?

Frá árinu 2020 hafa verið gefin út rafræn ökuskírteini á Íslandi. Margir hafa tekið þessu fagnandi þar sem í dag er hægt að borga fyrir þjónustu og vöru með símanum og hafa margir látið veskið ofan í skúffu. Ég heyrt margar sögur af ferðalöngum sem lenda í miklum vandræðum þegar út er haldið. Ferðalangar framvísa rafrænu ökuskírteini þegar þeir vilja taka bíl á leigu en fá þau svör að rafræn skilríki dugi ekki til heldur þurfi að hafa gamla góða bleika kortið meðferðis eða alþjóðlegt ökuskírteini. Kostnaður íslenskra ferðamanna vegna þessa hleypur á tugþúsundum sem fæst ekki endurgreiddur. Bankar á Íslandi telja síðan rafræn ökuskírteini ekki gild skilríki. Þannig að það virðist enginn telja þetta gilt og það virðist vera hálfgerður brandari hjá ríkisstjórninni að hafa þessi ökuskírteini svona.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál hvort stjórnvöld séu meðvituð um hve algengur misskilningur það er hjá landsmönnum að halda að þeir geti framvísað rafrænu ökuskírteini erlendis? Ég spyr einnig: Hvers vegna voru gefin út rafræn skilríki ef þau eru virt að vettugi hjá öðrum þjóðríkjum? Mun ráðherra svara skriflegri fyrirspurn minni um þessi atriði? Eða enn þá betra, getur hann svarað þessum spurningum hér í salnum strax í dag? Hefur ráðherra gert einhverja tilraun til að fá þessi rafrænu ökuskírteini viðurkennd í öðrum löndum t.d.?