154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. EES-samningurinn er mikilvægasti milliríkjasamningur sem við Íslendingar höfum gert. Þar fengum við Íslendingar tengsl, bæði fólkið og fyrirtækin, við 500 milljóna hagkerfi. Við sáum að viðskiptin örvuðust, samkeppni jókst og það sama var hægt að segja um lífsgæðin, þau jukust líka. Þetta er gott dæmi um það hvernig við beitum einmitt okkar fullveldi í þágu þjóðar — þannig að það sé undirstrikað og sagt. Einfalda myndin sem við erum að ræða hérna er að þessi regla, ef hún er ekki til staðar þá getur fólk hérna á Íslandi ekki treyst á þessi mikilvægu réttindi sín sem það fær innan EES-svæðisins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að þetta mál var lagt fram síðastliðið vor og það var einfaldlega þannig að það var ekki rætt, það var ekki sett á dagskrá af því að það var viðkvæmni þá innan stjórnarmeirihlutans: Er eitthvað núna sem er því til fyrirstöðu að við getum klárað þetta mál, burt séð frá því hvort við afgreiðum þessa skýrslu eða ekki? (Forseti hringir.) Má búast við því að ríkisstjórnin leggi fram málið aftur að breyttu breytanda og treysti sér til þess að verja EES-samninginn?